Annað gos fljótlega haldi landris áfram af sama hraða

Ármann Höskuldsson, prófessor í eld­fjallafræði, ræddi við mbl.is í dag.
Ármann Höskuldsson, prófessor í eld­fjallafræði, ræddi við mbl.is í dag. Samsett mynd

Ármann Höskuldsson, prófessor í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, segir að ef landrisið undir Svartsengi haldi áfram með sama hraða þá komi aftur gos eftir þrjár til fjórar vikur.

„Ef landrisið heldur áfram með þessum hraða þá verður aftur gos eftir þrjár til fjórar vikur,“ segir Ármann við mbl.is en mbl.is greindi fyrst fjölmiðla frá því í gær að kvikusöfnun sé aftur hafin undir Svartsengi.

„Landrisið undir Svartsengi var algjörlega viðbúið og þetta er sambærilegt og við fengum í Kröflu. Mörg íslensk eldfjöll hafa sýnt að um leið og gos er búið þá byrja þau að hlaða sig upp aftur. Þegar risið er komið á sama stað og fyrir gos þá eru komin hættumerki og stutt verður í gos. Landrisið getur líka hætt,“ segir Ármann við mbl.is.

Telur líklegt að gjósi á svipuðum stað

Ármann segir að ef svo fer að það byrji að gjósa á nýjan leik þá telji hann líklegt að það komi upp á svipuðum stað en gosið, sem hófst við Sundhnúkagíga á mánudagskvöld, er að öllum líkindum lokið. Ármann segist ekki vera í neinum vafa um að gosinu sé lokið.

Í spjalli sem undirritaður tók við Ármann fyrir rúmum mánuði var hann hundrað prósent sannfærður um að það yrði gos.

„Við erum komin í þetta ferli og ég held að menn þurfi ekkert að vera of stressaðir. Auðvitað er þetta óþægilegt fyrir Grindvíkinga en það virðist vera sama regla á þessu og í Kröflu. Menn getað slakað á þegar gosið er hafið og þegar því lýkur þá geta menn verið rólegir í einhverjar vikur, mánuði eða jafnvel ár þar til næsta gos kemur.

Þetta gos var sprungugos en gosið í Fagradalsfjalli var algjörlega óeðlilegt. Það var gos sem við höfum ekki séð áður, á öðruvísi svæði og ekki á þversprungnu gliðnunarsvæði. Núna erum við komin í þessa dæmigerðu íslensku eldsstöðvar á langri sprungu þar sem kvikan ríkur upp,“ segir Ármann ennfremur.

Ármann segir að gosið við Sundhnúkagíga hafi ekki verið stórt en kröftugt. Hann segir að atburðarrásin hafi ekki komið á óvart en gosið hófst með látum en lognaðist fljótt útaf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert