Bjartsýnn í kjölfar fundar og stefnt á formlegan fund

Fyrsti óformlegi fundur bandalagsins og SA var haldinn í morgun …
Fyrsti óformlegi fundur bandalagsins og SA var haldinn í morgun í Karphúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsti formlegi fundur nýs bandalags stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins (SA) í kjaraviðræðum fyrir nýja kjarasamninga verður 28. desember. Fyrsti óformlegi fundur bandalagsins og SA var haldinn í morgun í Karphúsinu.

Þetta staðfestir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, samtali við mbl.is.

Hvernig gekk fundurinn í morgun?

„Hann var bara mjög góður og ég skynja góðan anda í hópnum, beggja vegna borðs. Ég skynjaði svolítið á okkar viðsemjendum – mér finnst stemningin vera þannig – að þau séu tilbúin að fara í þessa vegferð með okkur,“ segir Ragnar.

Þau stéttarfélög sem tilheyra nýju bandalagi eru Efl­ing­, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, Samiðn - sam­band iðnfé­laga, Starfs­greina­sam­band Íslands og VR. Sam­an­lagt fara þessi fé­lög með samn­ings­um­boð fyr­ir rúm­lega 115 þúsund manns eða um 93% launa­fólks inn­an vé­banda ASÍ.

Alvöru atlaga gerð að nýrri þjóðarsátt

Eins og mbl.is hefur greint frá þá eru kröfur nýs bandalags fyrir komandi kjaraviðræður krónutöluhækkanir á grundvelli lífskjarasamningsins.

Segir Ragnar að bandalagið stefni á samning í anda þjóðarsáttarinnar sem gerð var árið 1990 þar sem atvinnurekendur, stéttarfélög, ríki og sveitarfélög undirrituðu kjarasamninga.

Ragnar segir að fundurinn í morgun gefi tilefni til bjartsýni um að „það eigi að gera alvöru atlögu að samningi í anda þjóðarsáttarinnar“. Hann segir að bandalagið leggi upp með samningi til þriggja ára en útilokar ekki samning sem nær til lengri tíma en það.

„Ég held það sé að lágmarki þrjú ár en svo held ég að það sé allt opið varðandi lengri samning,“ segir Ragnar.

Samningsaðilar lögðu ekki fram kröfur sínar á fundinum í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert