Dæmdur vegna banaslyss við Hítará

Maðurinn var fundinn sekur af Héraðsdómi Vesturlands.
Maðurinn var fundinn sekur af Héraðsdómi Vesturlands. mbl.is

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og svipt hann ökuréttindum í hálft ár vegna banaslyss á Snæfellsnesvegi 17. júlí síðastliðinn þegar húsbíll og jepplingur rákust saman. 

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið skammt norðan við Hítará í Borgarbyggð „án nægilegs tillits og varúðar og eigi fær um að stjórna ökutækinu örugglega vegna þreytu” á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að árekstur varð við bifreið sem var ekið um Snæfellsnesveg í suðurátt.

Afleiðingarnar voru þær að farþegi í bifreiðinni sem kom á móti, slóvenskur ríkisborgari, lést samstundis. Ökumaður bifreiðarinnar og annar farþegi, sem eru einnig slóvenskir ríkisborgarar, slösuðust.

Tveir bandarískir ríkisborgarar í bíl hins ákærða slösuðust einnig. Þar á meðal brákuðust þeir báðir á hryggjarlið, auk þess sem annar fékk djúpan skurð á enni.

Ákærði viðurkenndi fyrir dómi það sem hann var ákærður fyrir en taldi að hann ætti ekki að hljóta refsingu.

Spurður út í framburð eiginkonu hans á vettvangi um að hún héldi að hann hefði sofnað kvaðst hann telja að það væri rétt. Hann sagðist ekki muna eftir sjálfum árekstrinum, heldur muni hann síðast eftir sér um það bil 30 mínútum frá áfangastaðnum. Velti hann því fyrir sér hvort rökhugsun hans hefði ekki verið upp á sitt besta í 15 til 20 mínútur fyrir slysið. Honum þætti þetta mjög leitt en að hann hefði ekki brotið lög. Hann hefði hvorki ekið of hratt né reynt framúrakstur.

Héraðsdómur dæmdi manninn einnig m.a. til að greiða 1,5 milljónir króna í miskabætur, málsvarnarlaun verjanda síns upp á um 1,2 milljónir króna og þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola upp á rúmar 700 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert