Fá leyfi fyrir stóraukinni vinnslu á heitu vatni

Fá Veitur heimild til að vinna allt að 107,25 lítra …
Fá Veitur heimild til að vinna allt að 107,25 lítra á sekúndu að meðaltali yfir árið og 135 lítra á sekúndu hámarksnýtingu á hverjum tíma úr jarðhitageyminum.

Orkustofnun hefur gefið Veitum nýtingarleyfi á jarðhita á Bakka og Hjallakrók í Ölfusi. Með leyfinu fá Veitur heimild til að vinna tæplega 67,6% meira af heitu vatni en fyrir.

Fá Veitur heimild til að vinna allt að 107,25 lítra á sekúndu að meðaltali yfir árið og 135 lítra á sekúndu hámarksnýtingu á hverjum tíma úr jarðhitageyminum. Til samanburðar var meðalvinnsla ársins 2022 um 64 lítra á sekúndu þannig að heimildir til aukinnar vinnslu eru talsverðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu Veitna.

Vinnsluheimild nýtingarleyfis samsvarar hámarksvinnslugetu þeirra þriggja holna sem Veitur reka á svæðinu en það er mat Veitna að svæðið geti staðið undir meiri vinnslu með frekari borunum, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu hjá Veitum.
Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu hjá Veitum. Ljósmynd/Aðsend

Gera ráð fyrir stóraukinni eftirspurn

Fram kemur að auka þurfi orkuvinnslu á svæðinu til að mæta vexti í eftirspurn eftir heitu vatni í takti við fólksfjölgun og vegna aukinna umsvifa fyrirtækja.

„Það skiptir miklu máli að Veitur hafi nú nýtingarleyfi á jarðhita á Bakka. Það hefur verið töluverð fólksfjölgun undanfarin ár í Ölfusi og atvinnulífið er í mikilli sókn. Því er nauðsynlegt að Veitur geti sinnt sinni lögbundnu skyldu og tryggi enn frekar nægjanlegt vatn til hitaveitu. Við viljum vera góður samstarfsaðili allra sveitarfélaga á okkar starfssvæði og þetta er liður í því,“ er haft eftir Hrefnu Hallgrímsdóttur, forstöðumanni hitaveitu hjá Veitum.

Í tilkynningunni kemur fram að fólksfjöldaspá geri ráð fyrir 8 til 10% fjölgun íbúa í Þorlákshöfn til ársins 2029 og útlit sé fyrir stóraukna eftirspurn eftir heitu vatni vegna fiskeldis á veitusvæðinu.

„Veitur leggja áherslu á að framtíðarnýting jarðhitans verði með skynsamlega nýtingu og sjálfbærni að leiðarljósi. Við teljum jafnframt nauðsynlegt að hafa í huga að nýting jarðhitans í Ölfusi er talsvert ólík öðrum stöðum þar sem jarðhiti er nýttur, því óvenjustór hluti jarðhitans á þessu svæði er nýttur til atvinnustarfsemi. Þessum sérkennum ætlum við að hlúa að,“ er haft eftir Hrefnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka