Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær fjóra í tengslum við forsjárdeilumál Eddu Bjarkar Arnardóttur við barnsföður sinn, sem býr í Noregi.
Lögreglan hafði í gær uppi á þremur drengjum þeirra sem hafði verið leitað undanfarið. Var þeim komið í umsjón barnaverndaryfirvalda í gær áður en þeir fóru út á flugvöll og með flugi til Noregs með föður sínum.
Lögreglan staðfestir í tilkynningu fjölda þeirra sem voru handteknir og segir að þeir hafi verið færðir til skýrslutöku í tengslum við málið, en þeim sleppt að skýrslutökunum loknum. Þá segir að ekki sé unnt að veita frekari upplýsingar um málið.
Eins og mbl.is greindi frá í gær fóru drengirnir þrír með föður sínum til Noregs í gær. Þá hefur mbl.is jafnframt heimildir fyrir því að systir Eddu og lögmaður hennar hafi verið meðal þeirra sem voru handtekin. Ríkisútvarpið sagði svo frá því að sambýlismaður hennar hefði verið meðal þeirra handteknu, en ekki er ljóst hver sá fjórði var sem var handtekinn.
Yfirvöld höfðu leitað drengjanna um nokkurt skeið til að framkvæma svokallaða aðfarargerð, en í henni felst að yfirvöld færi drengina í forsjá föður síns í Noregi.