Framkvæmdastjóri SA: „Það þarf nýja þjóðarsátt“

Samtök atvinnulífsins funduðu með nýja bandalaginu í morgun og er …
Samtök atvinnulífsins funduðu með nýja bandalaginu í morgun og er tónninn góður í kjölfar fundar, bæði hjá SA og Ragnari Þór, formanni VR. Samsett mynd

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir í samtali við mbl.is að kominn sé tími á nýja þjóðarsátt í kjarasamningum til að kveða niður verðbólgu og þar með stýrivexti.

SA fundaði í morgun með nýju bandalagi stéttarfélaga, þar á meðal VR, Starfsgreinasambandnu og Eflingu, og segir Sigríður að sá fundur hafi verið góður. Hún segir mikilvægt að það sé breið samstaða um að ganga frá langtímasamningum sem hafi það að markmiði að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum.

„Það sem skiptir mestu máli er að við séum öll sameiginlega að vinna að þessu verkefni og það sem skiptir máli líka er að það sé enginn sem skorist undir ábyrgð,“ segir hún og hrósar Reykjavíkurborg fyrir að vera tilbúin að setja þak á gjaldskrárhækkanir umfram 3,5% á barnafjölskyldur.

„Það er til fyrirmyndar,“ segir hún.

Vill gera langtímakjarasamninga

Spurð út í orðræðu bandalagsins um að reyna ná fram nýrri þjóðarsátt þar sem ríki, sveitarfélög, atvinnulíf og stéttarfélög komi öll saman að gerð kjarasamninga segir hún:

„Þegar að staðan er eins og hún er, að verðbólgan er hátt í 8% og stýrivextir eru 9,25%, þá finnst okkur blasa við að það þarf breiða sátt, það þarf nýja þjóðarsátt til þess að ná utan um þetta verkefni og að allir séu sammála eða samstíga í að leysa úr því,“ segir hún en bætir við:

„Við eigum eftir að fá kynnta fyrir okkur kröfugerðina en okkar afstaða hefur verið og er auðvitað sú að til þess að ná árangri, til þess að verðbólgan lækki, þá þurfum við að gera langtímakjarasamninga sem að þá búa til fyrirsjáanleika sem getur verið grundvöllur að stöðugleika til framtíðar.“

Þarf að vera innistæða fyrir samningunum

Hún segir ljóst að samningar þurfi að vera með þeim hætti að það sé innistæða fyrir þeim hjá atvinnulífinu.

„Á sama tíma og við erum auðvitað alltaf raunsæ hjá Samtökum atvinnulífsins þá erum við líka jákvæð þegar við erum að fara inn í þetta verkefni með svona breiða samstöðu,“ segir Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert