Gul viðvörun á Þorláksmessu

Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra á morgun, Þorláksmessu.

Á vef Veðurstofunnar er spáð hvassviðri og snjókomu á þessu svæði. Viðvörunin gildir frá klukkan 9 í fyrramálið og gildir til klukkan eitt aðfaranótt aðfangadags.

Á Suðurlandi er spáð austan og norðaustan 10-15 m/s, en 15-20 syðst. Þar verður snjókoma með köflum og mögulega skafrenningur með erfiðum akstursskilyrðum, þetta á sérílagi við undir Eyjafjöllum og á veginum um Reynisfjall.

Við Faxaflóa er spáð norðan 13-23 m/s, hvassast í vindstrengjum á Snæfellsnesi. Líkur eru á éljum með erfiðum akstursskilyrðum, einkum norðan til á svæðinu.

Á Breiðafirði er spáð norðan 15-23 m/s og éljagangi. Erfið eða léleg akstursskilyrði verða á svæðinu og líkur á staðbundinni ófærð.

Á Vestfjörðum er spáð norðan 15-25 m/s og snjókoma. Léleg akstursskilyrði og ófærð líkleg.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra er spáð norðan 15-23 m/s og snjókomu vestan til á svæðinu og útlit fyrir léleg akstursskilyrði og jafnvel ófærð. Gera má ráð fyrir veðraskilum innan svæðisins og líkur eru á að austantil á svæðinu verði lengst af minni vindur og úrkoma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert