Hæstiréttur enn afdráttarlausari en Héraðsdómur

Niðurstaða Hæstaréttar í dómaramálinu sem kveðinn var upp í dag er afdráttalausari en dómur héraðsdóms um launaútreikninga dómara sem fjármála- og efnahagsráðuneytið breytti fyrr á árinu. 

Þetta segir hæstaréttarlögmaðurinn Stefán A. Svensson sem fór með málið fyrir hönd Ástríðar Grímsdóttur héraðsdómara, sem kærði málið til Héraðsdóms upphaflega.

Mála­vext­ir eru þeir að ís­lenska ríkið breytti út­reikn­ingsaðferð launa dóm­ara og annarra emb­ætt­is­manna rík­is­ins og lækkuðu launa­kjör þeirra við það. Fjársýsla rík­is­ins greindi frá því að laun­in hefðu verið of­greidd um ára­bil. Snertir málið 260 af æðstu embættismönnum landsins.

Héraðsdómur hafði þegar komist að þeirri niðurstöðu að ís­lenska ríkið mátti ekki lækka laun dóm­ara og krefjast end­ur­greiðslu eft­ir að ríkið taldi þá hafa fengið of­greidd laun. Niðurstaða Hæstaréttar segir þar að auki að það hafa verið óheimilt að breyta launaviðmiðinu til framtíðar með þeim hætti sem gert var. 

Endurgreiðslukrafa ríkisins ólögmæt

„Samkvæmt dómi Hæstaréttar var hvoru tveggja óheimilt að krefja dómara um endurgreiðslu launa aftur í tímann svo og að breyta launaviðmiðinu til framtíðar með þeim hætti sem gert var. Slíkt verður ekki gert nema með lögum frá Alþingi,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

„Að þessu leyti er niðurstaðan enn afdráttarlausari heldur en dómur héraðsdóms.“

Var Ástríður krafin um 551.120 krónur í endurgreiðslu af ríkinu vegna „ofgreiddra launa“ en staðfestir Hæstiréttur dóm Héraðsdóms um að þessi endurgreiðslukrafa ríkisins er ólögmæt.

Ekki gert án aðkomu ríkisins

Málið gæti verið fordæmisgefandi fyrir aðra dómara og embættismenn og þar af leiðandi gætu aðrir úr hópi æðstu embættismanna landsins krafist þess að ríkið falli frá endurgreiðslukröfu sinni eða endurgreiði það sem innheimt hefur verið, að því gefnu að ríkið falli ekki frá kröfunni að fyrra bragði.

„Komst Hæstiréttur því að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun að breyta því viðmiði sem lá til grundvallar árlegum útreikningi hlutfallslegrar breytingar á launum dómara væri ólögmæt,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Breytingin á launaviðmiði ríkisins til framtíðar var því ólögmæt að mati Hæstaréttar þar sem Alþingi þarf að taka ákvörðun um breytingu á launaviðmiði með þeim hætti sem var gert, ekki fjármála- og efnahagsráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka