Hæstiréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms um að íslenska ríkið mátti ekki lækka laun dómara og krefjast endurgreiðslu eftir að ríkið taldi þá hafa fengið ofgreidd laun.
Málavextir eru þeir að íslenska ríkið breytti útreikningsaðferð launa dómara og annarra embættismanna ríkisins og lækkuðu launakjör þeirra við það. Fjársýsla ríkisins greindi frá því að launin hefðu verið ofgreidd um árabil.
Héraðsdómur féllst á kröfur Ástríðar Grímsdóttur héraðsdómara um að ógilda ákvarðanir ríkisins um að krefja hana um ofgreidd laun ásamt því að lækka launin hennar til samræmis við breytta útreikningsaðferð. Ríkið vildi ekki una niðurstöðunni og áfrýjaði málinu beint til Hæstaréttar eftir dóm héraðsdóms í málinu og tók Landsréttur það því ekki til meðferðar.
Hæstiréttur dæmdi ríkið einnig til að greiða Ástríði 1,5 milljónir króna í málskostnað.