Mikil hætta á snjóflóðum á aðfangadag

Hríðarveðri og stormi er spáð. Mynd úr safni.
Hríðarveðri og stormi er spáð. Mynd úr safni.

Mikil hætta er talin á að snjóflóð falli á norðanverðum Vestfjörðum á aðfangadag. Spáð er norðanstormi og hríðarveðri og búast má við miklum skafrenningi.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar segir að talsvert hafi snjóað síðustu daga úr flestum vindáttum og að skafrenningsfóður sé víða. 

Varðskipið Freyja hefur þegar verið kallað út til að vera til taks á Vestfjörðum næstu daga.

Vaxandi norðaustanátt með snjókomu og éljum

„Lítill snjór var fyrir og er lausamjöllin sem nú þekur fjöll með fyrstu snjóum víðast hvar. Lítið er um eldri fannir undir nýsnævinu. Búast má við að vindflekar byggist upp í suðlægum viðhorfum um helgina,“ segir í spá Veðurstofunnar sem tekur til ofanflóða.

Sá fyrirvari er á spánni að hún er gerð fyrir stór landsvæði og að hún þurfi ekki að vera lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð. Einkum sé hún gerð með ferðafólk í fjalllendi í huga og taki bæði til snjóflóða af mannavöldum og veðurtengdra snjóflóða.

Vaxandi norðaustanátt er spáð í landshlutanum á Þorláksmessu, með snjókomu og éljum. Gengur svo í norðanstorm og hríðarveður á aðfangadag.

Gengur smám saman niður

Snýst þá aftur í norðaustanátt með kvöldinu og gengur smám saman niður fram á mánudag að sögn Veðurstofu, sem segir að búast megi við miklum skafrenningi.

Gul viðvörun tekur þar gildi kl. 23 að kvöldi Þorláksmessu og gildir fyrir landshlutann í sólarhring samkvæmt gildandi veðurspá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert