Mikill meirihluti þjóðarinnar, eða 76%, eru sammála því að útiloka eigi Ísrael frá þátttöku í Eurovision. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Prósent framkvæmdi 14. til 21. desember.
Um 60% þjóðarinnar er mjög eða frekar sammála því að Ísland eigi að draga sig úr Eurovision í ár ef Ísrael er ekki meinað þátttöku. 13% voru hvorki sammála né ósammála og 28% voru mjög eða frekar ósammála.
Þegar þessar spurningar eru krosskeyrðar sést að 79% þeirra sem eru sammála því að Íslandi eigi að dragi sig úr Eurovision ef Ísrael tekur þátt eru einnig sammála því að útiloka eigi Ísrael frá þátttöku.
Marktækur munur er á viðhorfi eftir kyni, 66% karla eru mjög eða frekar sammála á móti 87% kvenna.
Viðhorf þjóðarinnar er einnig breytilegt eftir aldri. Yngra fólk er að jafnaði meira sammála því að útiloka eigi Ísrael frá þátttöku í Eurovision. Af þeim sem eru 18-24 ára eru 85% mjög eða frekar sammála, samanborið við 68% þeirra á aldrinum 65 ára eða eldri.
Einungis 7% fólks á aldrinum 18-24 ára er mjög eða frekar ósammála samanborið við 19% þeirra sem eru 65 ára eða eldri. Enginn munur er á afstöðu eftir því hvort fólki búi á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni.
Félagið BDS - Ísland afhenti Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra, undirskriftarlista þar sem Rúv er hvatt til þess að draga Ísland úr keppni í Eurovision ef Ísrael verður ekki meinuð þátttaka. Um 50 manns mættu til mótmæla fyrir utan útvarpshúsið með skömmum fyrirvara, en um 9.500 skrifuðu undir áskorunina.
Útvarpsstjóri hefur áður sagt að Rúv muni ekki fara fram á að Ísrael verði vikið úr keppninni.
Þátttaka Ísrael í keppninni hefur lengi verið gagnrýnd og umdeild. Keppnin fór fram í Ísrael árið 2019, eftir sigur söngkonunnar Nettu árið áður. Fulltrúar Íslands í keppninni, hljómsveitin Hatari, vakti þá usla er þau borða með fána Palestínu í beinni útsendingu á úrslitakvöldinu.
Á meðal stærsta styrktaraðila keppninnar er hárvöruframleiðandinn Moroccanoil, sem er ísraelskt fyrirtæki. Þannig er til dæmis litur hins hefðbundna „rauða dregils“ á opnunarhátíð Eurovision í litum Moroccanoil og fagaðilar á vegum Moroccanoil sjá um hárgreiðslur allra keppenda.