Reyndi að ýta barnsmóður og barni fram af svölum

Hérðasdómur Reykjavíkur.
Hérðasdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 24 mánaða fangelsi, þar af er 21 mánuður skilorðsbundinn, fyrir fjölda brota á árunum 2021 og 2022.

Alls var maðurinn ákærður í 15 mismunandi liðum.

Hann var ákærður fyrir að hafa árið 2021 endurtekið og á alvarlegan hátt með ofbeldi og hótunum, ógnað heilsu og velferð fyrrverandi sambúðaraðila og barnsmóður með því að hafa rifið í hárið á henni, hent henni á gólfið og kýlt hana með krepptum hnefa í vinstri kinn og í framhaldinu sprautað hana með ópíóðalyfinu oxýkódon í handlegginn og hótað að drepa hana.

Sparkaði í líkamann 

Síðar sama dag var hann sakaður um að hafa veist að barnsmóður sinni í hjónaherberginu, kýlt hana í andlitið með krepptum hnefa, dregið hana á hárinu fram í stofu, sparkað víðsvegar í líkama hennar og síðan kastað síma hennar fram af svölum íbúðarinnar og í kjölfarið hafi hann reynt að ýta henni fram að svölunum á meðan hún hélt á syni þeirra. Einnig hafi hann hótað henni lífláti og ógnað henni með því að setja hníf upp að hálsi hennar.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa árið í janúar 2022 veist að sömu konu innandyra með ofbeldi og hótunum með því að kýla hana með krepptum hnefa ítrekað í andlit og kjálka, rifið í hár hennar og dregið hana á hárinu og áfram veist að henni inni á baðherbergi þar sem hún skall með höfuðið í sturtubotninn. Í kjölfarið hafi hann sparkað ítrekað í kvið hennar, tekið síðan upp hníf og hótað að drepa hana.

Í febrúar sama ár var hann sakaður um að hafa hringt í hana og hótað að koma til hennar og drepa með skammbyssu.

Braut ítrekað gegn nálgunarbanni

Sömuleiðis var hann sakaður um að hafa brotið nokkrum sinnum gegn nálgunarbanni með því að fara inn á heimili konunnar, auk þess að vera ákærður fyrir ýmis umferðar- og fíkniefnalagabrot.

Maðurinn var einnig sakaður um hótum og vopnalagabrot með því að hafa innandyra í Kópavogi í febrúar 2022 haldið exi yfir höfði manneskju og á sama tíma haft í vörslum sínum og átt loftbyssu án tilskilinna leyfa. Fyrir dómi var maðurinn sýknaður af broti á vopnalögum hvað varðar öxina. 

Ákærði neitaði sök varðandi alla ákæruliði nema einn sem sneri að fíkniefnalagabroti.

Auk þess að vera dæmdur í 24 mánaða fangelsi var honum gert að greiða barnsmóður sinni 1,5 milljónir króna í miskabætur, ásamt því að greiða 2/3 hluta málsvarnarlauna verjanda síns, sem voru alls 2,5 milljónir króna, alla þóknun réttargæslumanns brotaþola, 1.200.000 krónur, og 490.439 krónur í annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert