Þórhildur Magnúsdóttir fæddist árið 1917 í Miðhúsum í Biskupstungum og flutti á barnsaldri til Reykjavíkur. Hún fagnaði 106 ára afmæli í gær, er elst Íslendinga og finnst ekkert betra en nýr fiskur, helst silungur eða lax.
„Ég lifi mínu daglega lífi og ekkert annað, ég er ekki í neinum spretthlaupum eða neinu. En það er alltaf nóg að gera,“ segir Þórhildur, sem gengur um í hælaskóm og hefur alltaf haft dálæti á dansi. 97 ára systir hennar, Hulda, kemur oft í heimsókn og ganga þær þá saman heim til hennar og fá sér kaffi.
„Hún er vel á sig komin,“ segir Þórhildur þegar talið berst að göngutúrum þeirra systra. Spurð hvað standi upp úr, þegar hún lítur um farinn veg, segir hún: „Það hefur bara verið bjart og fallegt. Ég er lukkunnar pamfíll að lifa svona lengi. Það er langlífi í ættinni.“
Þórhildur kann betur við fisk en kjöt og liggur ekki í sælgæti.
„Ég hef alltaf borðað fiskinn minn. Það er hann sem ég legg áherslu á, af hvaða tagi sem hann er,“ segir hún og er skatan þar ekki undanskilin.
„Ég er meira fyrir fiskinn heldur en kjötið, en það er náttúrulega hátíðarmaturinn. Hann fer svo vel með mann. Fólk belgir sig út af kjöti en það fer ekki eins vel með fólk eins og að borða fisk. Það er mitt mat. Nýr lax eða silungur er það besta sem ég fæ í dag, nærri því spriklandi,“ segir hún og minnist þess að hafa veitt silung og lax á ferðalagi á fyrri tíð, ýmist með eiginmanni sínum eða elstu systur, með tjald og öllu tilheyrandi í þá daga.
„Við vorum í kringum fjöll og firnindi í gamla daga.“
Afkomendur Þórhildar eru nú orðnir tæplega 90 talsins og er einn á leiðinni. „Það er orðið nálægt hundraðinu. Þetta er allt frískt fólk miðað við fjöldann. Þetta hefur allt saman gengið ágætlega, það hafa komið skuggar á milli en þá réttir fólk úr kútnum,“ segir Þórhildur.
Nokkrir þeirra komu í afmælisveislu til Þórhildar á Sléttuvegi í gær þar sem 106 árunum var fagnað. Þórhildur segir glettin frá því að hún hafi spurt litla stúlku hve gömul hún væri.
„Hún svaraði að hún væri fimm ára. Þá sagði ég henni að ég væri sex ára. Henni leist ekki alveg á það,“ segir Þórhildur létt í lund á 106 ára afmælisdaginn.