Elsti Íslendingurinn fagnar 106 árum

Þórhildur Magnúsdóttir.
Þórhildur Magnúsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Þór­hild­ur Magnús­dótt­ir fædd­ist árið 1917 í Miðhús­um í Bisk­upstung­um og flutti á barns­aldri til Reykja­vík­ur. Hún fagnaði 106 ára af­mæli í gær, er elst Íslend­inga og finnst ekk­ert betra en nýr fisk­ur, helst sil­ung­ur eða lax.

„Ég lifi mínu dag­lega lífi og ekk­ert annað, ég er ekki í nein­um sprett­hlaup­um eða neinu. En það er alltaf nóg að gera,“ seg­ir Þór­hild­ur, sem geng­ur um í hæla­skóm og hef­ur alltaf haft dá­læti á dansi. 97 ára syst­ir henn­ar, Hulda, kem­ur oft í heim­sókn og ganga þær þá sam­an heim til henn­ar og fá sér kaffi.

„Hún er vel á sig kom­in,“ seg­ir Þór­hild­ur þegar talið berst að göngu­túr­um þeirra systra. Spurð hvað standi upp úr, þegar hún lít­ur um far­inn veg, seg­ir hún: „Það hef­ur bara verið bjart og fal­legt. Ég er lukk­unn­ar pamfíll að lifa svona lengi. Það er lang­lífi í ætt­inni.“

Best­ur nærri því spriklandi

Þór­hild­ur kann bet­ur við fisk en kjöt og ligg­ur ekki í sæl­gæti.

„Ég hef alltaf borðað fisk­inn minn. Það er hann sem ég legg áherslu á, af hvaða tagi sem hann er,“ seg­ir hún og er skat­an þar ekki und­an­skil­in.

„Ég er meira fyr­ir fisk­inn held­ur en kjötið, en það er nátt­úru­lega hátíðarmat­ur­inn. Hann fer svo vel með mann. Fólk belg­ir sig út af kjöti en það fer ekki eins vel með fólk eins og að borða fisk. Það er mitt mat. Nýr lax eða sil­ung­ur er það besta sem ég fæ í dag, nærri því spriklandi,“ seg­ir hún og minn­ist þess að hafa veitt sil­ung og lax á ferðalagi á fyrri tíð, ým­ist með eig­in­manni sín­um eða elstu syst­ur, með tjald og öllu til­heyr­andi í þá daga.

„Við vor­um í kring­um fjöll og firn­indi í gamla daga.“

Nýr af­kom­andi á leiðinni

Af­kom­end­ur Þór­hild­ar eru nú orðnir tæp­lega 90 tals­ins og er einn á leiðinni. „Það er orðið ná­lægt hundraðinu. Þetta er allt frískt fólk miðað við fjöld­ann. Þetta hef­ur allt sam­an gengið ágæt­lega, það hafa komið skugg­ar á milli en þá rétt­ir fólk úr kútn­um,“ seg­ir Þór­hild­ur.

Nokkr­ir þeirra komu í af­mæl­is­veislu til Þór­hild­ar á Sléttu­vegi í gær þar sem 106 ár­un­um var fagnað. Þór­hild­ur seg­ir glett­in frá því að hún hafi spurt litla stúlku hve göm­ul hún væri.

„Hún svaraði að hún væri fimm ára. Þá sagði ég henni að ég væri sex ára. Henni leist ekki al­veg á það,“ seg­ir Þór­hild­ur létt í lund á 106 ára af­mæl­is­dag­inn.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert