Félagi áhugafólks um Söngvakeppni evrópska sjónvarpsstöðva (FÁSES) hefur snúist hugur og skorar á Rúv að senda ekki fulltrúa í Eurovision 2024 nema Ísrael taki ekki þátt í keppninni.
Greint var frá því fyrr í mánuðinum að FÁSES kvaðst ekki taka afstöðu til hugsanlegrar sniðgöngu á Eurovision-keppni næsta árs.
Þá var einnig bent á að formaður félagsins hafi sagt félagið taka afstöðu gegn þáttöku Rússa í Eurovision í fyrra. Nú virðist stjórnarmönnum félagsins hafa snúist hugur.
Tíu þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til Ríkisútvarpsins um að neita að taka þátt í Eurovision nema Ísrael verði vísað úr keppni.
„FÁSES, Félag áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, fordæmir öll ofbeldisverk og brot á mannréttindum. Ógerlegt er að hafa gildi Eurovision um alþjóðleg samskipti, skilning og sameiningu fólks í hávegum undir þessum kringumstæðum. FÁSES skorar því á RÚV að senda hvorki sigurvegara Söngvakeppninnar né annan fulltrúa til þátttöku í Eurovision 2024 nema Ísrael taki ekki þátt í keppninni,” segir í ályktun sem birt á vef félagsins í dag, Þorláksmessu.
Í FÁSES eru 530 félagar og tóku 238 þeirra þátt í atkvæðagreiðslunni sem er 45% svarhlutfall. Alls studdu 169 félagar ályktunina, 55 voru á móti og 14 sátu hjá.
Mikill meirihluti þjóðarinnar, eða 76%, eru sammála því að útiloka eigi Ísrael frá þátttöku í Eurovision. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Prósent framkvæmdi 14. til 21. desember.
mbl.is greindi einnig frá því fyrr í dag að Izhar Cohen, sem vann Eurovision árið 1978 fyrstur Ísraelsmanna, hefði sakaði íslensku þjóðina um gyðingahatur í sjónvarpsþætti á Stöð 13 í heimalandi sínu.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur sagst skilja afstöðu þeirra sem krefjist þess að Ísland beiti sér fyrir því að Ísrael verði vísað úr Eurovision mætavel.
Sagði hann í samtali við mbl.is á dögunum horfa þyrfti til ýmissa sjónarmiða þegar komi að því að taka ákvörðun um hvort og hvernig sé hægt að bregðast við kröfum sem varði þátttöku Íslands í keppninni.
20 þúsund manns hafa verið drepnir í árásum Ísraelshers á Gasasvæðinu, að sögn Hamas-hryðjuverkasamtakanna. Stríðið hefur nú geisað í rúmlega tvo mánuði en það hófst með árás Hamas-vígamanna þann 7. október, þar sem 1.139 manns voru drepnir. Stjórnvöld beggja vegna víglínunnar segja meginþorra látinna vera óbreytta borgara.