„Fyrsti norðanhvellurinn í vetur“

App­el­sínu­gul viðvör­un tek­ur gildi á Vest­fjörðum klukk­an 5 í fyrra­málið …
App­el­sínu­gul viðvör­un tek­ur gildi á Vest­fjörðum klukk­an 5 í fyrra­málið og gild­ir til klukk­an 10. Mynda af Ísafirði úr safni. mbl.is/RAX

„Þetta er fyrsti norðanhvellurinn í vetur. Það er talsverður snjór fyrir,“ segir Ólíver Hilmarsson, ofanflóðasérfræðingur á snjóflóða- og skriðuvakt Veðurstofu Íslands.

Veðurstofan hefur tilkynnt að mikil hætta sé tal­in á að snjóflóð falli á norðan­verðum Vestfjörðum á morgun, aðfangadag.

App­el­sínu­gul viðvör­un tek­ur gildi á Vest­fjörðum klukk­an 5 í fyrra­málið og gild­ir til klukk­an 10. Aðspurður segir Ólíver að byggð sé ekki í hættu vegna hugsanlegra flóða:

„Við reiknum ekki með því eins og er.“

Snjóflóðahætta er talin möguleg á Flateyrarvegi síðar í dag, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Dregur úr „vonskuverðinu“ á aðfangadagskvöld

„Á morgun má búast við að það verði vonskuveður – ekkert ferðaveður að minnsta kosti – um fyrri part dags. Það verður örugglega mjög blint. Það er mikil lausamjöll sem fýkur af stað og verður skafrenningur. Svo bætist snjókoman ofan á það. Ég held að fólk eigi bara að halda sér heima og njóta jólanna,“ segir Ólíver.

Hann bendir aftur á móti á að vonskuveðrið nái hámarki í fyrramálið en síðan dragi úr því er á líður.

Eru þá minni líkur að þetta eyðileggi aðfangadagskvöldið fyrir fólki?

„Já, en það má samt búast við því að vegir verði lokaðir vegna ófærðar, lélegs skyggns og svo auðvitað snjóflóða.“

Landhelgisgæslan vaktar svæðið

Áhöfn Freyju, varðskips Land­helg­is­gæsl­unn­ar, var kölluð út að beiðni lög­regl­unn­ar á Vest­fjörðum vegna slæmr­ar veður­spár og hugs­an­legr­ar snjóflóðahættu um helg­ina. Varðskipið lagði af stað klukkan 0.45 í nótt og ætti því að vera mætt vestur á firði.

Vegna veðurs og snjóflóðahættu mun veg­in­um um Súðavík­ur­hlíð á Vest­fjörðum verða lokað klukkan 22.00 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka