„Mér finnst þetta gjörsamlega óþolandi“

Eiríkur hefur birt færslu á Facebook vegna athugasemdanna sem skrifaðar …
Eiríkur hefur birt færslu á Facebook vegna athugasemdanna sem skrifaðar hafa verið undir frétt mbl.is. Samsett mynd

„Kvikan sem spúst hefur upp á yfirborðið í eldgosinu við Sundhnúkagíga er þróaðri en sú kvika sem leiddi af sér þrjú gos í og við Fagradalsfjall á síðustu árum.“

Ofangreind málsgrein markar upphaf fréttar sem birtist í Morgunblaðinu og á mbl.is fyrr í vikunni þar sem greint var frá niðurstöðum rannsókna á eldgosinu við Sundhnúkagíga.

Notkun orðsins kórrétt

Málsgreinin sem um ræðir hefur sætt harðri gagnrýni á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem tekist er á um rétta notkun sagnarinnar „að spúa“. Þó er notkun orðsins kórrétt eins og sjá má á vef stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Rúmlega hundrað einstaklingar hafa brugðist við Facebook-færslu mbl.is þar sem fréttinni var deilt á fimmtudag, en þar að auki hafa yfir eitt hundrað athugasemdir verið skrifaðar við hana.

Í athugasemdunum fara margir hörðum orðum um hvernig sögninni að „spúa“ bregður fyrir í málsgreininni og jafnvel enn harðari orðum um blaðamenn Morgunblaðsins og mbl.is.  

„Þetta lið er ekki talandi“

„Eru blaðamenn ekki búnir að eyða meirihluta æfinnar í skóla en rita svona bull í opinberan fjölmiðil? Ég er ekki hissa á niðurstöðum PISA,“ skrifar Unnur Sveins. 

„Nei, nú er mér allri lokið, sá eða sú sem skrifaði þetta hefði ekki átt að komast upp úr fyrsta bekk. SPÚST!!!!!“ tekur Sigrún Árnadóttir undir. 

„Þvílíkt orðalag er þetta háskólamenntuð manneskja sem hefur slíkt orðalag,“ bætir Hlíf Sumarrós Hreinsdóttir við. 

„Spúst??? Veit ekki hvort jeg á að hafa meiri áhyggjur af þróun tungumálsins eða þessari þróuðu kviku,“ skrifar Jón Örn.   

„Ha, spúst? Er ekki hægt að fá inn á fjölmiðla talandi fullorðið fólk. Eru þetta illa talandi/skrifandi krakkar í aukavinnu með skóla?“ spyr Hrafnhildur Guðmundsdóttir. 

„Kvikan sem spúst hefur? Þetta lið er ekki talandi,“ skrifar Hlynur Guðmundsson.

Ummælin ekki íslenskunni til framdráttar

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskufræðum, birti í dag færslu í Facebook-hópnum „Málspjallið“ sem fjallar um viðbrögðin sem frétt mbl.is hefur fengið, en þar gerir hann meðal annars grein fyrir enn fleiri athugasemdum hennar. 

Í samtali við mbl.is segir Eiríkur, sem lengi hefur beitt sér fyrir málefnalegri og jákvæðri umræðu um íslenska tungu, að hann hafi margoft verið var við mikla hneykslun í garð málfars fólks á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega þegar komi að ungu fólki.  

„Mér finnst þetta gjörsamlega óþolandi,“ segir Eiríkur, spurður um gagnsemi harðlega gagnrýnna ummæla á borð við þau sem má sjá að ofan. 

„Það er alltaf verið að gera lítið úr ungu fólki og segja að það kunni ekki neitt, viti ekki neitt og allt þetta. Og ef fólk heldur að þetta sé íslenskunni til framdráttar, þá eru menn á stórkostlegum villigötum.“

Viðurkennt að rakka fólk niður

Að sögn Eiríks getur það reynst erfitt að hvetja fólk til málefnalegrar umræðu um málfar á opinberum vettvangi því það sé í einhverjum skilningi talið viðurkennt að rakka fólk niður fyrir málfar þess.

Hann kveðst þó hafa gert tilraun til þess að færa umræðu um málfar betri farveg með því að stofna Facebook-hópinn Málspjall þar sem lagt er upp úr jákvæðri umræðu og fræðslu um málnotkun. 

„Ég er að vona að það skili einhverju en það dugir ekki til,“ segir Eiríkur og vísar þar með til Facebook-hópsins sem telur ríflega níu þúsund manns. Hann segir tvíhyggju einkenna tungumálið sem geri það að verkum að málfar skiptist annaðhvort í rétt eða rangt. 

„Þetta er svo mikill misskilningur vegna þess að í lifandi tungumáli eru bara alls konar tilbrigði. Grundvallaratriðið er í fyrsta lagi að íslenskan þjóni þörfum málnotenda og að hún lagi sig að breyttum aðstæðum, breyttum tímum og að fólk fælist ekki frá henni.“

Unga fólkið tekur við tungumálinu 

Loks segir Eiríkur það lykilatriði að málnotendur finni sig í málinu og að þeir upplifi það sem sitt eigið, sér í lagi þeir sem yngri eru, vegna þess að þeir komi til með að taka við tungumálinu. 

„Unga fólkið verður að taka við tungumálinu og til þess að það hafi áhuga á því að taka við tungumálinu megum við ekki vera búin að hrekja það frá því með því að segja að það kunni ekki með málið að fara og viti ekki neitt,“ segir Eiríkur. 

Hann segir merg málsins vera að mikilvægt sé að sýna virðingu, umburðarlyndi og tillitsemi gagnvart ummælum annars fólks. 

„Ef að eldra fólkið er alltaf að koma þeirri tilfinningu inn hjá unga fólkinu að það eigi ekki þetta mál, heldur séum það við þessi gömlu sem eigum málið og að unga fólkið sé að spilla því fyrir okkur, er það ekki vænlegt til árangurs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert