„Mér finnst þetta gjörsamlega óþolandi“

Eiríkur hefur birt færslu á Facebook vegna athugasemdanna sem skrifaðar …
Eiríkur hefur birt færslu á Facebook vegna athugasemdanna sem skrifaðar hafa verið undir frétt mbl.is. Samsett mynd

„Kvik­an sem spúst hef­ur upp á yf­ir­borðið í eld­gos­inu við Sund­hnúkagíga er þróaðri en sú kvika sem leiddi af sér þrjú gos í og við Fagra­dals­fjall á síðustu árum.“

Of­an­greind máls­grein mark­ar upp­haf frétt­ar sem birt­ist í Morg­un­blaðinu og á mbl.is fyrr í vik­unni þar sem greint var frá niður­stöðum rann­sókna á eld­gos­inu við Sund­hnúkagíga.

Notk­un orðsins kór­rétt

Máls­grein­in sem um ræðir hef­ur sætt harðri gagn­rýni á sam­fé­lags­miðlin­um Face­book þar sem tek­ist er á um rétta notk­un sagn­ar­inn­ar „að spúa“. Þó er notk­un orðsins kór­rétt eins og sjá má á vef stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum. 

Rúm­lega hundrað ein­stak­ling­ar hafa brugðist við Face­book-færslu mbl.is þar sem frétt­inni var deilt á fimmtu­dag, en þar að auki hafa yfir eitt hundrað at­huga­semd­ir verið skrifaðar við hana.

Í at­huga­semd­un­um fara marg­ir hörðum orðum um hvernig sögn­inni að „spúa“ bregður fyr­ir í máls­grein­inni og jafn­vel enn harðari orðum um blaðamenn Morg­un­blaðsins og mbl.is.  

„Þetta lið er ekki talandi“

„Eru blaðamenn ekki bún­ir að eyða meiri­hluta æf­inn­ar í skóla en rita svona bull í op­in­ber­an fjöl­miðil? Ég er ekki hissa á niður­stöðum PISA,“ skrif­ar Unn­ur Sveins. 

„Nei, nú er mér allri lokið, sá eða sú sem skrifaði þetta hefði ekki átt að kom­ast upp úr fyrsta bekk. SPÚST!!!!!“ tek­ur Sigrún Árna­dótt­ir und­ir. 

„Því­líkt orðalag er þetta há­skóla­menntuð mann­eskja sem hef­ur slíkt orðalag,“ bæt­ir Hlíf Sum­ar­rós Hreins­dótt­ir við. 

„Spúst??? Veit ekki hvort jeg á að hafa meiri áhyggj­ur af þróun tungu­máls­ins eða þess­ari þróuðu kviku,“ skrif­ar Jón Örn.   

„Ha, spúst? Er ekki hægt að fá inn á fjöl­miðla talandi full­orðið fólk. Eru þetta illa talandi/​skrif­andi krakk­ar í auka­vinnu með skóla?“ spyr Hrafn­hild­ur Guðmunds­dótt­ir. 

„Kvik­an sem spúst hef­ur? Þetta lið er ekki talandi,“ skrif­ar Hlyn­ur Guðmunds­son.

Um­mæl­in ekki ís­lensk­unni til fram­drátt­ar

Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lensku­fræðum, birti í dag færslu í Face­book-hópn­um „Mál­spjallið“ sem fjall­ar um viðbrögðin sem frétt mbl.is hef­ur fengið, en þar ger­ir hann meðal ann­ars grein fyr­ir enn fleiri at­huga­semd­um henn­ar. 

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Ei­rík­ur, sem lengi hef­ur beitt sér fyr­ir mál­efna­legri og já­kvæðri umræðu um ís­lenska tungu, að hann hafi margoft verið var við mikla hneyksl­un í garð mál­fars fólks á sam­fé­lags­miðlum, þá sér­stak­lega þegar komi að ungu fólki.  

„Mér finnst þetta gjör­sam­lega óþolandi,“ seg­ir Ei­rík­ur, spurður um gagn­semi harðlega gagn­rýnna um­mæla á borð við þau sem má sjá að ofan. 

„Það er alltaf verið að gera lítið úr ungu fólki og segja að það kunni ekki neitt, viti ekki neitt og allt þetta. Og ef fólk held­ur að þetta sé ís­lensk­unni til fram­drátt­ar, þá eru menn á stór­kost­leg­um villi­göt­um.“

Viður­kennt að rakka fólk niður

Að sögn Ei­ríks get­ur það reynst erfitt að hvetja fólk til mál­efna­legr­ar umræðu um mál­far á op­in­ber­um vett­vangi því það sé í ein­hverj­um skiln­ingi talið viður­kennt að rakka fólk niður fyr­ir mál­far þess.

Hann kveðst þó hafa gert til­raun til þess að færa umræðu um mál­far betri far­veg með því að stofna Face­book-hóp­inn Mál­spjall þar sem lagt er upp úr já­kvæðri umræðu og fræðslu um mál­notk­un. 

„Ég er að vona að það skili ein­hverju en það dug­ir ekki til,“ seg­ir Ei­rík­ur og vís­ar þar með til Face­book-hóps­ins sem tel­ur ríf­lega níu þúsund manns. Hann seg­ir tví­hyggju ein­kenna tungu­málið sem geri það að verk­um að mál­far skipt­ist annaðhvort í rétt eða rangt. 

„Þetta er svo mik­ill mis­skiln­ing­ur vegna þess að í lif­andi tungu­máli eru bara alls kon­ar til­brigði. Grund­vall­ar­atriðið er í fyrsta lagi að ís­lensk­an þjóni þörf­um mál­not­enda og að hún lagi sig að breytt­um aðstæðum, breytt­um tím­um og að fólk fæl­ist ekki frá henni.“

Unga fólkið tek­ur við tungu­mál­inu 

Loks seg­ir Ei­rík­ur það lyk­il­atriði að mál­not­end­ur finni sig í mál­inu og að þeir upp­lifi það sem sitt eigið, sér í lagi þeir sem yngri eru, vegna þess að þeir komi til með að taka við tungu­mál­inu. 

„Unga fólkið verður að taka við tungu­mál­inu og til þess að það hafi áhuga á því að taka við tungu­mál­inu meg­um við ekki vera búin að hrekja það frá því með því að segja að það kunni ekki með málið að fara og viti ekki neitt,“ seg­ir Ei­rík­ur. 

Hann seg­ir merg máls­ins vera að mik­il­vægt sé að sýna virðingu, umb­urðarlyndi og til­lit­semi gagn­vart um­mæl­um ann­ars fólks. 

„Ef að eldra fólkið er alltaf að koma þeirri til­finn­ingu inn hjá unga fólk­inu að það eigi ekki þetta mál, held­ur séum það við þessi gömlu sem eig­um málið og að unga fólkið sé að spilla því fyr­ir okk­ur, er það ekki væn­legt til ár­ang­urs.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert