Blásið er til sóknar með öflugum tillögum um hvernig hægt sé að styrkja nám á landsbyggðinni, sem og auka aðgengi að fjarnámi, í skýrslu um fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst sem birt var í gær.
Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is.
Skýrslan var unnin í framhaldi af viljayfirlýsingu Áslaugar Örnu og háskólanna tveggja sem undirrituð var í september. Með sameiningu skólanna yrði settur á fót nýr háskóli með höfuðstöðvar á Akureyri og starfstöðvum bæði í Borgarnesi og Reykjavík.
„Þetta gæti orðið stórsókn fyrir Akureyri, Norðurland og landsbyggðina alla, þar sem skólinn gæti orðið næst stærsti háskóli landsins, eða svipaður að stærð og Háskólinn í Reykjavík með um 3.500 nemendur,“ segir Áslaug Arna.
Talið er að með því að sameina krafta, styrkleika og sérfræðiþekkingu skólanna yrði til enn þá samkeppnishæfari skóli, bæði hérlendis og á alþjóðavettvangi, sem myndi geta styrkt enn frekar háskólamenntun á Íslandi og samkeppnisstöðu Íslands, segir Áslaug Arna.
Þá segir hún að horft sé til tækifæra eins og í rannsóknum á Norðurslóðum, en Háskólinn á Akureyri hefur verið leiðandi í slíkum rannsóknum og telur Áslaug Arna að með sameiningunni yrði hægt að styrkja þær enn frekar.
„Ef allt gengur að óskum gætum við séð háskóla sem er settur saman af skólum sem hafa verið leiðandi í fjarnámi og sterkir á landsbyggðinni, segir Áslaug Arna.
Hún segir samtalið og þá vinnu sem þegar hefur átt sér stað hafa verið gríðarlega gott. Fram undan sé umræða um skýrsluna í háskólaráðum beggja háskóla, sem og samtal við starfsfólk, nemendur, sveitastjórnir og aðra aðila, um næstu skref.
„Boltinn er hjá skólunum og samfélaginu að taka þessa greiningarvinnu og tillögu til skoðunar,“ segir Áslaug Arna sem leggur upp með að möguleg sameiningin sé unnin í samvinnu við skólanna og samfélagið.
„Skólarnir hafa verið leiðandi og öflugir í að bjóða upp á fjarnám. Það er alveg ljóst af þessari skýrslu að fjarnámið gæti styrkst verulega og auðvitað ýtt við örðum háskólum eins og öll góð samkeppni gerir. En við megum ekki gleyma því að samkeppnin er ekki síst við háskóla utan landsteinana og alþjóðlega. Við þurfum að stefna að því að geta boðið upp á enn þá öflugra háskólanám,“ segir Áslaug Arna og bætir við að skýrslan sýni að sameiningin feli í sér gríðarleg tækifæri til þess.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að stór hluti þeirra nemenda sem sækir nám í skólunum velji sér að búa á landsbyggðinni að náminu loknu. Hún segir þessa niðurstöðu ýta undir mikilvægi þess að bjóða upp á öflugt háskólanám á landsbyggðinni, meðal annars til að halda eftir þekkingu á svæðinu.
Aðspurð segir Áslaug Arna að skólinn yrði opinber og skráningargjald eftir því. Í skýrslunni eru þó settar fram hugmyndir um sjálfseignarstofnun sem kann að vera sett á fót með skólagjöldum, segir hún og útskýrir að þar yrði aðallega horft til stjórnendafræðslu og símenntunar.
Í skýrslunni eru jafnframt greindir þeir óvissuþættir sem fylgja sameiningunni. Segir Áslaug Arna að auðvitað fylgi verkefnum sem þessum ávallt einhverjar áskoranir, en á sama tíma kveðst hún bjartsýn enda allt eins líklegt að í ljós komi fleiri tækifæri. Loks segir hún mikilvægt að tryggja stuðning á tímabilinu og fjármagn til þess að tryggja farsæla sameiningu.