Veðurstofa Íslands hefur lýst yfir óvissustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Óvissustigið tekur gildi á miðnætti í kvöld.
Frá þessu greinir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra á Facebook en Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, útskýrir í samtali við mbl.is að óvissustig veðurstofu sé ólíkt óvissustigi almannavarna.
„Við erum ekki komin á óvissustig almannavarna en það er ekkert óvanalegt að það geti gerst. Það fer svolítið eftir veðurspánni,“ segir Hjördís.
Veðurstofan hefur tilkynnt að mikil hætta sé talin vera á að snjóflóð falli á norðanverðum Vestfjörðum á morgun, aðfangadag. Appelsínugul viðvörun tekur gildi á Vestfjörðum klukkan 5 í fyrramálið og gildir til klukkan 10.
Byggð er ekki talin í hættu eins og er, að sögn Ólívers Hilmarssonar en hann er ofanflóðasérfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Aftur á móti er möguleiki á því að ofanflóð falli yfir vegi og snjóflóðahætta er talin möguleg á Flateyrarvegi í kvöld, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Vegna veðurs og snjóflóðahættu mun veginum um Súðavíkurhlíð á Vestfjörðum verða lokað klukkan 22.00 í kvöld.
Áhöfn Freyju, varðskips Landhelgisgæslunnar, var kölluð út að beiðni lögreglunnar á Vestfjörðum vegna slæmrar veðurspár og hugsanlegrar snjóflóðahættu um helgina. Varðskipið er mætt vestur á firði.