Hyggst mæla fyrir innheimtu líkgeymslugjalds

Guðrún Hafsteinsdóttir segist hafa falið dómsmálaráðuneytinu að setja málið í …
Guðrún Hafsteinsdóttir segist hafa falið dómsmálaráðuneytinu að setja málið í forgang. Samsett mynd

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að bregðast þurfi tafarlaust við alvarlegri stöðu líkhúsa hér á landi. 

Hún kveðst hafa falið ráðuneytinu að setja málið í forgang til þess að hægt sé að vinna að framlagningu lagafrumvarps á vorþingi sem mæli fyrir um heimild til innheimtu líkgeymslugjalds. 

Staða líkhúsa alvarleg

„Það er ljóst að staða líkhúsa á Íslandi er alvarleg og það er mat mitt og dómsmálaráðuneytisins að það er nauðsynlegt að bregðast tafarlaust við,“ segir Guðrún í skriflegu svari til mbl.is, spurð hvernig ástand líkhúsa landsins horfi við dómsmálaráðuneytinu.

Hún segir dómsmálaráðuneytið hyggja að hefjast handa strax í samráði við fjármálaráðuneytið og bendir jafnframt á að hún hafi falið dómsmálaráðuneytinu að setja málið í forgang. 

„Ég tel brýnt að mæla fyrir breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Þar sem um alvarlegt mál er að ræða hef ég falið ráðuneytinu að setja málið í forgang og vinna að framlagningu lagafrumvarps strax á vorþingi í því augnamiði að mæla fyrir um heimild til innheimtu líkgeymslugjalds,“ segir Guðrún. 

Einhver þurfi að greiða kostnað rekstursins

Að sögn Guðrúnar munu lagabreytingarnar koma til með að tryggja kirkjugörðum heimild til þess að innheimta sérstakt gjald við líkgeymslu sem endurspegli kostnað við rekstur og viðhald líkhúsa. 

„Að auki þarf að koma því þannig fyrir að innheimt gjöld komi ekki til lækkunar á framlögum ríkissjóðs, enda sé þeim ætlað að standa undir lögbundinni þjónustu kirkjugarðanna, en þar fellur rekstur líkhúsa ekki undir,“ segir Guðrún. 

Spurð hvort henni þætti ákjósanlegra ef rekstur líkhúsa væri alfarið í höndum einkaaðila segir Guðrún aðalatriðið vera að sá sem sinni þjónustunni hafi áunnið sér traust til þess. 

„Rekstur líkhúsa kostar og einhver þarf að greiða þann kostnað. Annað hvort greiðir ríkið þetta og innheimtir skatttekjur af öllum landsmönnum til að standa undir þessu eða þá að tekið er hóflegt gjald fyrir hvert lík sem stendur undir þessum kostnaði. Það finnst mér eðlileg nálgun,“ segir Guðrún loks. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert