Leita enn að tveimur byssumönnum

Heimilisfólk var á staðnum en enginn særðist.
Heimilisfólk var á staðnum en enginn særðist. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan leitar nú að mönnunum tveimur sem réðust inn í íbúð í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld og hleyptu af skotum.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, í samtali við mbl.is.

Skotum var hleypt af í íbúð í Álfholti í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld. Heimilisfólk var á staðnum en enginn særðist.

Einn maður hafði verið handtekinn en hann hefur verið látinn laus þar sem hann er ekki talinn tengjast málinu. Lögregla hefur því engan í haldi í tengslum við málið að svo stöddu.

„Við leitum enn þá þeirra sem eru grunaðir um aðild að þessu máli. Það liggur fyrir að það voru tveir menn sem fóru inn í íbúðina en í svona málum geta fleiri tengst svona verknaði þannig að við leitum þeirra sem eru grunaðir um aðild,“ segir Grímur.

Ekki vitað hvað mönnunum gekk til

Spurður hvort lögreglan viti hverjir mennirnir eru segist Grímur ekki geta farið út í það á þessu stigi málsins. „Við erum að vinna eftir þeim upplýsingum sem við höfum.“

Er vitað hvað mönnunum gekk til?

„Nei, það er hluti af rannsókninni að reyna að komast að því hvað mönnum gengur til með svona athæfi.“

Spurður hvar rannsóknin standi svarar Grímur:

„Það var unnið í allan gærdag og verið að afla upplýsinga, en við erum auðvitað að leggja áherslu á það að handtaka þá sem eru grunaðir um aðild að málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert