„Það mun snjóa einhvers staðar á landinu flesta daga, en mesta snjókoman er alla vega búin í bili hér á Suður- og Vesturlandi,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um veðurhorfur næstu daga.
Hann segir útlit fyrir mikinn kulda víða um land á gamlársdag.
Að sögn Óla Þórs mun bera á einhverri snjókomu á bæði Suðurlandi og Norðausturlandi á morgun.
Þá er útlit fyrir éljagang á Vestfjörðum og á Suðausturlandi, en utan þess má vænta ágætisveðurs á Vesturlandi og yfir Faxaflóa og Breiðafirði.
„Þar verður ágætisveður að mörgu leyti, svolítill vindur þegar það líður á morgundaginn en lítil úrkoma og almennt þokkalegasta veður.“
Að sögn Óla Þórs verður úrkoma að mestu leyti bundin við norðanvert landið á morgun. Hvassast verður vestan til á landinu en skásta veðrið verður á sunnanverðu landinu. Þar verður minnsta úrkoman og hægasti vindurinn.
Óli Þór segir að áfram verði kalt víða á landinu næstu daga og gæti frost náð tólf eða fimmtán gráðum.
Hann segir útlit fyrir ágætisveður á fimmtudag. Þá taki vindinn að lægja en jafnframt kólni talsvert víða á landinu.
„Þegar það léttir til á landinu herðir á frostinu aðeins meira þannig að fimmtudagurinn verður ansi kaldur inn til landsins og gæti kuldi alveg farið niður í tólf til fimmtán stig og fimmtán til tuttugu stig inni á landi. Það er vel kalt.“
Að sögn Óla Þórs hefur veðurspáin fyrir áramótin nú tekið að skýrast, en hún hefur verið breytileg síðustu daga.
„Það mun líklega snjóa eitthvað á Suður- og Suðausturlandi fyrri partinn á gamlársdag, en sá úrkomubakki ætti að fara að mestu leyti suður af landinu um kvöldið. Þá léttir til víða en þá verður gríðarlega kalt,“ segir Óli Þór.
„Ef þetta gengur eftir verður gamlárskvöld alveg eins og einhverjir myndu kalla það skítkalt. Það verður mjög víða undir tíu stiga frosti og við gætum séð tölur sem fara undir tuttugu stig.“