Ný mynd sýnir útbreiðslu hraunsins í öðru ljósi

Svart á hvítu. Hraunið er stór dökkur flekkur á snæviþöktum …
Svart á hvítu. Hraunið er stór dökkur flekkur á snæviþöktum bakgrunni. Samsett mynd/Hörður Kristleifsson/@h0rdur

Ljósmyndarinn Hörður Kristleifsson náði 360 gráða yfirlitsmynd af gosstöðvunum við Sundhnúkagígaröðina í veðurblíðunni í gær, á jóladag.

Nýja hraunið er bersýnilegt á myndinni en þar nær snjó engan veginn að festa. Fornu Sundhnúkagígaröðina má svo sjá þar sem hún liggur að hluta til samsíða nýja hrauninu.

Myndin sýnir þá enn betur, eins og fram hefur komið, að mikið hraun rann úr gosstöðvunum á annars tiltölulega skömmum tíma.

Hér fyrir neðan má skoða myndina gagnvirkt með því að þysja inn og út og skruna til hliðanna. Hörður mælir frekar með því að fólk skoði myndina í tölvu en í síma.

Uppi í hægra horni myndarinnar má einnig velja að láta hana fylla allan skjáinn.

Sýndarferðalag um Fagradalsfjall

Hörður, sem heldur úti vinsælum Instagram-reikningi þar sem hann deilir ljósmyndum sínum af íslenskri náttúru, kveðst vona að myndin hjálpi fólki við að átta sig betur á útbreiðslu hraunsins og staðsetningu með tilliti til kennileita á svæðinu, sem merkt hafa verið inn á myndina.

Í samtali við mbl.is bendir Hörður einnig á að hann sé nýlokinn við að framleiða 360 gráða sýndarferðalag yfir gosstöðvarnar í Fagradalsfjalli, fyrir áfangastaðastofu Reykjaness.

Á því ferðalagi má skoða svæðið allt frá þrettán sjónarhornum:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert