„Já, ég hyggst gefa kost á mér til starfs biskups Íslands,“ segir Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur og prófastur í Háteigskirkju aðspurð.
Er hún þar með fyrsti kandídatinn sem lýsir yfir áhuga á embættinu, sem raunar er ekki opinbert embætti eftir breytingar á kirkjulögum, heldur er um að ræða ráðningarsamband á milli kirkjunnar og verðandi biskups. Ráðningarferlið er þannig að fólk hlýtur tilnefningu og sá útvaldi verður sá sem er hlutskarpastur í atkvæðagreiðslu fulltrúa sóknarnefnda á landsvísu sem fram fer í mars á næsta ári.
Helga Soffía segist hafa velt því lengi fyrir sér hvort hún ætti að sækjast eftir því að verða biskup. Fólk innan úr kirkjunni hafi skorað á hana en hún hafi gert sér grein fyrir því að miklar væntingar séu gerðar til biskups Íslands og því sé ákvörðunin að stíga fram með þessum hætti ekki léttvæg.
„Það er ekki eins og maður vakni einn góðan veðurdag og segi: nú ætla ég að vera biskup. Þetta á sér mun lengri aðdraganda og við í kirkjunni tölum um innri og ytri köllun. Þegar ég tala um ytri köllun þá er það hið formlega og stjórnsýslulega í kringum þetta ferli. Innri köllunin snýr að því hvort hjarta manns sé tilbúið til að leggja sitt af mörkum, til orðs, æðis og anda, til þess að sinna þessu starfi,“ segir Helga Soffía.
Hún hefur starfað innan kirkjunnar í áratugi og telur sig þekkja gangverk stofnunarinnar vel.
Af hverju vilt þú verða biskup?
„Ég er prestur í sókn í Reykjavík sem ann starfi sínu. Ég elska að skíra börn, ferma, messa, veita fólki sálgæslu, gefa saman fólk og vera með fólki í gleði og harmi. Því þurfti ég að spyrja mig hvort ég væri tilbúin að gefa það upp á bátinn fyrir hið stjórnsýslulega starf. Þegar ég var búin að hugsa þetta og biðja fyrir því lengi áttaði ég mig á því að ég er prestur sem vill halda áfram að vera prestur í biskupsstarfi. Ég er prestur kirkjunnar og það verður mín nálgun í starfi,“ segir Helga Soffía.
Sú breyting hefur orðið á að biskup er ekki lengur embættismaður í þeim skilningi sem var. Hvernig lítur þú á aðskilnað ríkis og kirkju, ertu hlynnt frekari aðskilnaði?
„Mér hugnast þessi breyting,“ segir Helga Soffía. Í ljósi þessa telur hún að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þegar átt sér stað þótt enn sé stjórnsýsluleg ábyrgð sem kirkjan beri.
„Við förum inn í aðstæður óháð því hverrar trúar fólk er. Við förum þangað sem við erum beðin að fara. Þannig rekur þjóðkirkjan almannaheillaþjónustu," segir Helga Soffía.
Þannig að þú telur þetta samband ríkis og kirkju heillavænlegt svona og engin ástæða til að krukka frekar í það?
„Nei ég tel að aðskilnaður sé þegar orðinn á milli ríkis og kirkju. Ríkið hleypur ekkert undir bagga ef rekstur þjóðkirkjunnar er orðinn erfiður. Við þurfum að bjarga okkar eigin fjárhag sjálf,“ segir Helga Soffía.
Fólk hefur sagt sig úr þjóðkirkjunni í miklum mæli. Er það ekki áhyggjuefni hvað reksturinn varðar?
„Það gerir okkur vissulega erfiðara um vik,“ segir Helga Soffía en framlög til trúfélaga fylgja þeim fjölda sem skráður er í viðkomandi félag.
Hún segir að skýringar á þessari þróun séu margar. Þannig hafi meðal annars mest púður farið í viðhald húsa þjóðkirkjunnar undanfarin ár. Fyrir vikið hafi safnaðarstarf verið minna en hún telur æskilegt. Eins hafi listastarf látið á sjá og kórstarfinu minna sinnt en áður svo dæmi séu nefnd.
Hvers vegna er þjóðkirkjan að tapa í þessari hugmyndafræði og fólk að skrá sig úr kirkjunni í ríkari mæli en áður?
„Ég spyr sjálfa mig að þessu. En svörin eru ábyggilega jafn mörg og fólkið sem um ræðir,“ segir Helga Soffía.
Hún telur fólk ýmist segja sig úr kirkjunni til að segja sína skoðun á stofnuninni eða vegna persónulegra samskipta við einhverja einstaklinga í þjóðkirkjunni.
„En þetta snýr líka að almennu áhugaleysi og lífsskoðun fólks. Fólk skráir sig úr einu trúfélagi en skráir sig ekki í annað. Mig langar að ávarpa þetta vandamál sérstaklega. Ég hef einlægan áhuga á því að skoða þetta mál. Að tala við fólk sem ákveður að standa fyrir utan trúfélag. Það er breyting í íslensku samfélagi og hvarvetna í hinum kristna heimi,“ segir Helga Soffía.
Hvers vegna á fólk að binda trúss sitt við kristna trú frekar en aðrar hugmyndir eða lífsspeki?
„Vegna þess að það er vandi að vera manneskja. Það er vandasamt að takast á við verkefni dagsins. Manneskjunni mæta bæði gleði og sorgir og sorgin kemur fyrirvaralaust án þess að gera boð á undan sér. Við sem erum trúuð og trúum á Guð teljum að það skipti öllu máli fyrir manneskju í sigrum og mótlæti heimsins að eiga þessa trú til að styrkja sig og styðja sig við, til að efla gleði sína í mannlegu lífi. Það er það sem trúin gefur manninum. Mig langar að tala um þetta við þá sem snúið hafa baki við trúnni. Mig langar að spyrja fólk af hverju það er á þessari vegferð. Ég ætla ekki að sannfæra fólk um neitt, heldur ætla ég að hlusta á það. Það breytir því ekki að ég tel að fólkið í landinu og kirkjan eigi samleið," segir Helga Soffía.
Hvað með kristinfræðina inni í skólum? Nú er kennd trúarbragðafræði en ekki kristinfræði og kristni almennt veigaminni þáttur í skólastarfinu en áður. Hver er þín afstaða til þess?
„Ég tel að það farsæla samband sem var á milli skólanna og kirkjunnar sé eftirsóknarvert. Þegar prestar fóru inn í bekki og gátu talað við krakkana um gleði og sorg. Ég var sjálf nýlega beðin af einum skóla í Reykjavík að tala við börn um missi, sorg og dauða. Það er vandasamt og þarna eru prestar með mikla reynslu. Og ég tel að þarna sé óumræðanlegur hagur samfélagsins að samnýta kennara og presta. Þegar kemur að því að boða trú þá vil ég gjarnan fá börnin í kirkjuna. Ég geri mér grein fyrir því að hluti krakkanna er annarrar trúar. Þá vaknar sú spurning hvort þau vilji koma með í kirkjuna eða bíða heima á meðan. Þetta tel ég að þurfi að leysa á hverjum stað í hverju tilfelli. En mér finnst vont að það sé svo strangt að skólabörn megi ekki koma í kirkjuna. Við þurfum að kenna þeim um menningu, listir og tákn, sem er partur af þeirra menningu, og okkar vilji er að gera það áfram,“ segir Helga Soffía.