Bíða eftir fjölskyldum sem fastar eru á Gasa

Hópurinn hefur sett upp tjöld fyrir utan Alþingishúsið.
Hópurinn hefur sett upp tjöld fyrir utan Alþingishúsið. mbl.is/Eyþór

Hópur Palestínumanna sem býr hér á landi hefur sett upp tjöld fyrir utan Alþingishúsið vegna kröfu um fjölskyldusameiningu. Palestínsk börn bíða eftir foreldrum sínum og systkinum sem eru föst á Gasa.

„Við munum sitja hér þangað til að við sjáum fjölskyldur okkar yfirgefa Gaza,“ segir í yfirlýsingu hópsins á Facebook-síðu No Borders Iceland.

Ísland hafi samþykkt umsókn fólksins um vernd eftir langa bið sem hafi gert þeim kleift að sækja um fjölskyldusameiningu. Þá hafi tekið eitt og hálft ár að fá svör frá Útlendingastofnun en þau hafi komið eftir að stríðið hófst.

Hópurinn hefur fengið samþykkta fjölskyldusameiningu.
Hópurinn hefur fengið samþykkta fjölskyldusameiningu. mbl.is/Eyþór

Börn bíða eftir foreldrum sínum og systkinum

„Hér eru palestínsk börn sem hafa beðið eftir foreldrum sínum og systkinum í tvö og hálft ár.“

Hópurinn hafi síðustu 80 daga haft samband við mannréttinda- og ríkisstofnanir hér á landi til að krefjast brottflutnings fjölskyldna sinna sem föst eru á Gasasvæðinu.

mbl.is/Eyþór

„Þau eru án matar, án vatns og annarra lífsnauðsynja. Við getum ekki sofið inni á hlýju heimili á meðan fjölskyldur okkar eru heimilislausar, við getum ekki borðað og drukkið á meðan þau svelta.“

mbl.is/Eyþór

Samkvæmt upplýsingum mbl.is samanstendur hópurinn af um 30 til 40 Palestínumönnum hér á landi sem hafa fengið samþykkta fjölskyldusameiningu. Yfir 100 ástvinir þeirra eru enn á Gasa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert