Karlotta Líf Sumarliðadóttir
Lögregla leitar enn að mönnunum sem réðust inn í íbúð í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld og hleyptu af skotum. Enginn er í haldi lögreglu í tengslum við málið.
Þetta staðfestir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
„Við erum að vinna úr þeim gögnum sem við höfum og mannanna er leitað.“
Lögregla telur sig hafa þokkalega skýra mynd af atburðarásinni umrætt kvöld, að sögn Elínar.
Eins og mbl.is hefur greint frá var skotum hleypt af í íbúð í Álfholti í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld. Heimilisfólk var á staðnum en enginn særðist.
Lögregla vopnaðist og var með mikinn viðbúnað auk þess sem sérsveitin var kölluð til.
Fram kom í gær að einn maður hefði verið handtekinn en síðar látinn laus þar sem hann var ekki talinn tengjast málinu.