Krefjast tuga milljarða frá ríkinu í kjaraviðræðum

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýtt bandalag stéttarfélaga, sem saman fer með samningsumboð um 93% launafólks innan Alþýðusambands Íslands, krefst þess að ríkið auki útgjöld sín til barna-, húsa- og vaxtabóta um 20-25 milljarða króna. Þetta er ein af meginkröfum bandalagsins, segir Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins í samtali við Morgunblaðið. Hann fullyrðir að stefnt sé að nýrri þjóðarsátt með aðkomu ríkis og sveitarfélaga.

„Svo liggur alveg fyrir að ef þetta á að takast þá verða sveitarfélögin að koma þannig að þessu borði að þau hlífi barnafjölskyldum við gjaldskrárhækkunum,“ segir Vilhjálmur.

Sveitarfélög vítt og breitt um landið þurfi að halda gjaldskrárhækkunum á barnafjölskyldur í skefjum og segir hann það klárt að um það verði rætt við Samband íslenskra sveitarfélaga í komandi kjaraviðræðum.

„Meginmarkmið samninganna gengur út á að ná verðbólgunni hratt og örugglega niður og vaxtastiginu, því þar liggur mesti ávinningurinn handa launafólki, neytendum og heimilum,“ segir hann.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), sagði á Þorláksmessu við Morgunblaðið að kominn væri tími á nýja þjóðarsátt og að óformlegur fundur SA og stéttarfélaga í síðustu viku hefði verið góður. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í skriflegu svari til Morgunblaðsins að það lofi góðu að formlegar kjaraviðræður hefjist á jákvæðum nótum og þá einkum að samningsaðilar horfi á verkefnið með ábyrgum hætti og þar með talið til lengri tíma.

„Aftur á móti er of snemmt að segja nokkuð um mögulega aðkomu ríkisins enda er það ekki samningsaðili á almennum vinnumarkaði,“ segir Þórdís.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert