Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segist engan veginn kannast við þá atvikalýsingu í fjölmiðlum um að maður hafi verið handtekinn á aðfangadag fyrir það eitt að vera dökkur á hörund. Lögreglan hafi þó handtekið mann sem var sofandi inni í bíl fyrir að sýna ekki skilríki.
Þórunn Helgadóttir birti færslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hún greindi frá því að Brian, 28 ára stjúpsonur sinn, hefði verið handtekinn á aðfangadag fyrir „það eitt að vera svartur“.
Vísir greindi fyrst frá en færsla Þórunnar hefur vakið mikla athygli.
Þar er atburðarásinni lýst þannig að Brian hafi verið á leið á Hlemm til að ná síðasta strætisvagninum heim þegar lögregluþjónar hafi stöðvað hann, krafið hann um skilríki og síðan handtekið þegar í ljós kom að hann hafi verið skilríkjalaus.
Þegar Brian sagði til nafns og kennitölu var hann ásakaður um að ljúga, að því er fram kemur í færslu Þórunnar. Lögreglan hafi logið að honum að ætla að keyra hann upp í Breiðholt til að skoða skilríkin en í staðinn ekið honum á lögreglustöðina á Hlemm.
Lögregluþjónarnir hafi talað ensku við hann en íslensku sín á milli, jafnvel þótt hann skildi íslensku. Á endanum hafi rannsóknarlögreglumaður komið og gefið fyrirmæli um að Brian yrði keyrður heim og skilríkin skoðuð þar.
Þegar heim var komið, um kl. 22, var fjölskyldan hans þar. Þá hafi Brian ávarpað Þórunni sem mömmu og lögreglumennirnir loksins hætt afskiptum sínum af manninum. Þórunn segir í færslunni að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem lögreglan hafi komið illa fram við syni þeirra og mismunað þeim fyrir að vera hörundsdökkir.
Greint var frá því í tilkynningu frá lögreglunni á aðfangadag að einn þyrfti að dúsa í fangageymslu yfir jólin, þar sem hann „neitaði af gefa upp persónuupplýsingar sínar sem honum er skylt að gera“.
Lögreglan segir nú í yfirlýsingu að karlmaður á þrítugsaldri hafi verið handtekinn í Hlíðunum í Reykjavík eftir hádegi á aðfangadag í kjölfar tilkynningar um mann sem var sagður vera sofandi í bíl og hafði bíllinn víst verið í gangi í töluverðan tíma.
Lögreglan hafi brugðist við tilkynningunni, haldið á vettvang og fundið bílinn þar sem maður hafi verið sofandi í bílnum. Lögreglan hafi vakið manninn og því næst spurt um persónuupplýsingar en hann neitað að gefa þær upp „þrátt yfir margítrekaðar beiðnir lögreglu“.
„Maðurinn var færður á lögreglustöð, en hann var áfram tregur til að veita persónuupplýsingar og var jafnframt margsaga,“ segir í yfirlýsingu lögreglunnar.
„Ef fólk er ósátt með samskipti lögreglu getur það alltaf leitað til nefndar um eftirlit með lögreglu,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Hann hefur svipaða sögu að segja af atburðunum og þá sem fram kemur í yfirlýsingu lögreglunnar. Ásmundur bendir á að öll samskipti við manninn hafi verið tekin upp á búkmyndavélar og styðji við það sem segir í tilkynningu lögreglu.
„Reynt var að komast að heimilisfangi mannsins, en hann var heldur ekki hjálplegur í þeim efnum,“ segir í yfirlýsingu lögreglunnar. Þegar lögreglunni hafi á endanum tekist að koma manninum til síns heima og sannreyna hver hann var hafi honum verið sleppt.
„Lögreglan leggur sig ávallt fram um að eiga góð samskipti við alla borgara og það átti líka við hér,“ segir í yfirlýsingunni að lokum.
Ekki náðist í Þórunni Helgadóttur við gerð fréttarinnar.