Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir að komið hafi til tals að lýsa eftir mönnunum sem réðust inn í íbúð í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld og hleyptu af skotum. Engin ákvörðun hafi þó verið tekin um það.
Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við málið og byssumannanna er enn leitað.
„Við höfum fengið upplýsingar og erum að vinna úr þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur frá því um jólanóttina,“ segir Grímur í samtali við mbl.is.
Verður lýst eftir mönnunum?
„Við þurfum að taka stöðuna á því undir kvöld hvort við lýsum eftir þeim eða hvort við höfum uppi á þeim eftir öðrum leiðum.“
Eins og mbl.is hefur greint frá var skotum hleypt af í íbúð í Álfholti í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld. Heimilisfólk var á staðnum en enginn særðist. Lögregla vopnaðist og var með mikinn viðbúnað auk þess sem sérsveitin var kölluð til.