Mótmælir styttri opnun sundlauga yfir hátíðirnar

Ólafur segir það sína hefð að fara í sund um …
Ólafur segir það sína hefð að fara í sund um vetur, sumar, vor og haust, jól og páska. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúi í Reykjavík mótmælir harðlega breytingum á opnunartíma sundlauga borgarinnar yfir hátíðirnar. Afgreiðslutíminn hefur verið skertur um 60% á tveimur árum. 

Það er gríðarlega vinsælt hjá hluta þjóðarinnar að dýfa sér í sundlaugar landsins yfir hátíðirnar eins og fram kom í frétt sem birtist á mbl.is á aðfangadag. Hjá mörgum er um að ræða rótgróna jólahefð á meðan aðrir eru fastagestir allt árið um kring. 

Breytingin setti strik í rútínu margra

Ólafur Egilsson listamaður er einn þeirra sem telst til fastagesta í sundlaugum landsins allt árið um kring. Breytingar Reykjavíkurborgar á opnunartíma þeirra yfir hátíðirnar settu því smá strik í rútínu Ólafs, sem nýtur þess í botn að fara í sund.

Hann segir það þó ekki jafn notalegt að fara í sundlaugina „þegar maður er eins og síld í potti.“ Það var einmitt þannig sem Agli leið þegar hann fór í Vesturbæjarlaugina rétt fyrir lokun í gær. Úr varð að Ólafur ákvað að skoða nánar opnunartíma og aðsókn í sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu yfir hátíðirnar. 

Allir pottar yfirfullir

Að hans sögn hefur opnunartími átta sundlauga Reykjavíkur, yfir jólahátíðina, verið styttur um 162 klukkustundir frá árinu 2021, eða úr 275 klukkustundum í 113 klukkustundir. 

„Ég held að það þurfi aðeins að endurskoða þennan niðurskurð,“ segir Ólafur sem fer þó ekki fram á að allar sundlaugar Reykjavíkurborgar séu opnar yfir hátíðirnar. 

„Það er aðallega að það sé pláss fyrir mann,“ segir Ólafur og útskýrir að einungis þrjár sundlaugar hafi verið opnar í gær, annan í jólum. Hann hafi ekki fengið neinn skáp fyrir fötin sín og að allir pottar hafi verið yfirfullir. 

Hefur fulla trú á að borgin endurskoði opnunartímann

Ólafur segir vel mega vera að það séu forsendur fyrir því að stytta opnunartíma og skerða. „En skerðing um 60% á tveimur árum finnst mér allt of bratt,“ segir hann og kveðst hafa spjallað við starfsfólk sem sagðist hafa varað borgaryfirvöld við því að allt myndi fyllast. 

Auk þess ræddi Ólafur við gamlan mann sem hefur hitt sitt fólk í Vesturbæjarlauginni á gamlársdag í fleiri áratugi. Þeirri hefð verður þó ekki fylgt í ár þar sem laugin er lokuð.

Ólafur skorar á borgaryfirvöld að endurskoða opnunartíma sundlauganna yfir hátíðirnar. Að minnsta kosti þannig að fólk nái að njóta sín í laugunum. 

Aðspurður segist hann hafa fulla trú á því að það verði gert, enda hafi borgin áður hlustað á íbúa þegar kemur að opnunartíma sundlauganna. Var það til að mynda gert þegar fólk vildi rýmri opnunartíma um helgar, segir hann. 

Færslu Ólafs má lesa í heild sinni hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert