Tímabundin lokun Bláa lónsins framlengd

Staða Bláa lónsins verður metin að nýju 29. desember að …
Staða Bláa lónsins verður metin að nýju 29. desember að er fram kemur í tilkynningunni. mbl.is/Hákon Pálsson

Bláa lónið verður lokað til og með 29. desember og verður staða þess endurmetin í kjölfar nýs áhættumats. 

Fram kemur í tilkynningu sem Bláa lónið sendi frá sér í kvöld að í vegna eldgossins við Sundhnúkagíga hafi öllum starfsstöðvum lónsins verið lokað tímabundið. 

Þar segir að forsvarsmenn Bláa lónsins bíði nú eftir nýju áhættumati og hafi því verið ákveðið að framlengja lokun þess til og með 29. desember og verði staðan þá metin að nýju. 

Í tilkynningunni kemur fram að haft verði samband við alla gesti sem eigi bókanir á næstu dögum. Þá verði haldið áfram að fylgjast grannt með stöðu mála í nánu samráði við yfirvöld. 

Bláa lóninu var lokað tímabundið 9. nóvember síðastliðinn vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga, en það opnaði aftur að hluta sunnudaginn 17. desember.

Að kvöldi næsta dags, mánudagsins 18. desember, hófst eldgos við Sundhnúkagíga og var lóninu því lokað samstundis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert