„Enginn má skorast undan ábyrgð“

Sigríður Margrét Oddsdóttir og Bjarnheiður Hallsdóttir í Karphúsinu nú í …
Sigríður Margrét Oddsdóttir og Bjarnheiður Hallsdóttir í Karphúsinu nú í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að enginn megi skorast undan þeirri ábyrgð að ná niður mikilli verðbólgu og háum stýrivöxtum.

Nýtt bandalag stéttarfélaga og SA fundaði í Karphúsinu fyrir hádegi og segir Sigríður að fundurinn hafi verið góður.

„Við ákváðum að gefa út sameiginlega yfirlýsingu þar sem sú staða er komin upp að við erum núna – SA og breiðfylking stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðnum – búin að ákveða það að við ætlum að gera kjarasamninga til lengri tíma sem veita fyrirsjáanleika og stuðla að efnahagslegum stöðugleika,“ segir Sigríður.

Skora á fyrirtæki, ríki og sveitarfélög

Hún segir þau öll sammála um að mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum sé að ná niður verðbólgu og stýrivöxtum sem koma hart niður á bæði fyrirtækjum og heimilum. 

„Við erum þess vegna líka að benda á að til þess að það markmið náist þurfi allir að leggjast á eitt, aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög, það má enginn skorast undan ábyrgð,“ segir Sigríður. 

„Við sameiginlega erum að skora á fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að styðja við markmið kjarasamninganna með því að halda aftur af gjaldskrárhækkunum, verðhækkunum og launahækkunum,“ segir Sigríður. 

Hún segir mikla samstöðu vera um þessi verkefni. Nú fari í hönd mikil vinna og boðað hefur verið til fundar strax eftir áramót, 3. janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka