Fer „peppaður“ inn í áramótin

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, (til vinstri á myndinni) og Ragnar …
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, (til vinstri á myndinni) og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að fundur nýs banda­lags stétt­ar­fé­laga og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins (SA) í viðræðum fyr­ir nýja kjara­samn­inga hafi gengið mjög vel.

„Það er náttúrulega sögulegt að við séum að senda hér sameiginlega yfirlýsingu frá okkur,“ segir hann í samtali við mbl.is að loknum fundi.  

Vilhjálmur segir að yfirlýsingin kveði á um að skorað sé á sveitarfélög, fyrirtæki, ríkið og í raun alla um að axla ábyrgð „þannig að við náum þessum markmiðum sem við ætlum okkur, að ná niður verðbólgu og ná niður vöxtum. Því það er alveg ljóst ef þessir aðilar taka ekki þátt í þessu þá munum við fljótt enda úti í skurði.“

Mikil samstaða

Aðspurður segir Vilhjálmur að það sé mikil samstaða meðal fólks og menn taki verkefnið mjög alvarlega. 

„Það er fullur vilji fulltrúa Samtaka atvinnulífsins að taka þátt í þessu verkefni og mér er það til efs að svona sameiginleg yfirlýsing hafi verið send út. Ég hugsa að við þurfum að fara alveg aftur í þjóðarsáttina 1990, því þau eru að skora á sín aðildarfélög að stilla öllum verðhækkunum í hóf sem eiga að koma núna til framkvæmda um áramótin.

Og ekki bara það, heldur er líka verið að tala um að það sé í raun og veru verið að hvetja sveitarfélög og aðra sem hafa nú þegar tilkynnt um hækkanir að endurskoða þær, vegna þess að markmið okkar er alveg skýrt, að það er að ná niður vöxtum og verðbólgu sem að gagnast okkur öllum mun betur heldur en að enda hér í áframhaldandi mikilli verðbólgu og háu vaxtarstigi.“

Markmiðið sé enn fremur að ná í mark áður en samningar renna út í lok janúar.

Gríðarlegur ávinningur fyrir samfélagið

Vilhjálmur segir að nú vinni sérfræðingar að því að kostnaðarmeta þær hugmyndir sem hafi verið kynntar SA á fundinum.

„Við erum að reyna að stilla okkar launabreytingum þannig að þær séu trúverðugar og skapi hér þessar forsendur þannig að verðbólguvæntingar fari hratt niður. Og ef okkur tekst þetta þá verður ávinningurinn fyrir samfélagið allt í heild sinni gríðarlegur,“ segir Vilhjálmur sem vildi ekki tjá sig nánar að svo stöddu um þær hugmyndir sem voru kynntar á fundinum.  

Næsti fundur er fyrirhugaður 3. janúar. „Ég ætla að fara inn í áramótin mjög peppaður,“ segir Vilhjálmur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka