Fór ekki bjartsýnn inn á fundinn

Ragnar Þór segir að fréttir um gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga og fyrirtækja …
Ragnar Þór segir að fréttir um gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga og fyrirtækja hafi ekki gefið honum tilefni til bjartsýni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, segir fund nýs bandalags stéttarfélaga og SA hafa gengið vel. Hann var ekki bjartsýnn fyrir fundinn.

„Ég get alveg viðurkennt það að ég fór ekkert rosalega bjartsýnn inn á fundinn, þó ég reyni nú alltaf að fara lausnamiðaður og bjartsýnn inn á alla fundi sem ég fer á,“ segir Ragnar Þór í samtali við mbl.is í Karphúsinu í dag.

Hann segir að fréttir um gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga og fyrirtækja hafi ekki gefið honum tilefni til bjartsýni og vísar í frétt Morgunblaðsins í dag.

Mikill vilji hjá SA

Engu að síður segir hann fundinn hafa gengið vel. Viðbrögð samningsaðila, og sérstaklega viðsemjenda, gefi til kynna að allir séu að taka vinnunni og framhaldinu mjög alvarlega. 

„Ég skynjaði mikinn vilja hjá Samtökum atvinnulífsins í dag. Það er yfirleitt forsenda fyrir því að það sé hægt að hefja svona vinnu, að hún skili einhverjum árangri. Að þetta snúist ekki um einhverjar skotgrafir og karp, heldur lausnir og lendingu,“ segir Ragnar Þór.

Leyfir sér að vera bjartsýnn

Hann segist leyfa sér að vera bjartsýnn að samningir náist áður en fyrri samningar renni út. Það krefjist hins vegar gífurlega mikillar vinnu.

„Undirbúningurinn hjá okkur er búinn að taka mánuði. Við erum lang stærsti hlutinn af almenna markaðnum sem ætlar að gera atlögu að þessu.

Ef að bæði okkar viðsemjendur, sveitarfélögin og stjórnvöld, og fyrirtækin í landinu, eru tilbúin í þessa vegferð, að þá ætti þetta að ganga nokkuð fljótt og vel fyrir sig.“

Vonast til að gjaldskrárhækkanir gangi til baka 

Ragnar segir að nú muni sérfræðingar frá stéttarfélögunum og SA hittast og hefja sína vinnu. Næsti formlegi fundur verði 3. janúar klukkan 10. 

„Frá og með þriðja janúar reikna ég með að það verði gerð mjög hörð atlaga á því að ná saman,“ segir Ragnar Þór.

„Það verða allir að hafa trú á þessari vinnu, ekki bara við og Samtök atvinnulífsins, heldur fólkið í landinu. Ef að sú trú er til staðar þá vonast ég til að gjaldskrárhækkanir gangi til baka, boðaðar hækkanir og líka þær sem hafa verið framkvæmdar.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að fyrirtækin og hið opinbera taki stöðuna alvarlega ef við ætlum okkar að komast á þann stað með verbólgu og vaxtastig eins og var þegar best lét.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert