Hægist ekki á landrisinu

Ekki hefur hægst á landrisinu við Svartsengi.
Ekki hefur hægst á landrisinu við Svartsengi. mbl.is/Eyþór

Land heldur áfram að rísa um hálfan til einn sentimetra á dag við Svartsengi. Með þessu áframhaldi mun landið ná þeirri hæð í kringum 2. eða 3. janúar, sem það náði fyrir hamfarirnar 10. nóvember og eldgosið 18. desember.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson jarðeðlis­fræðing­ur og fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands.

„Landrisið er á mjög svipuðum hraða og það var bæði fyrir 10. nóvember og 18. desember. Það er erfitt að tala um einhvern viðmiðunarpunkt í þessu. Ég veit ekki alveg hvort það sé eitthvað viðmið sem við getum notað. Ef við horfum á einhverjar aðrar GPS-stöðvar getur það verið allt öðruvísi,“ segir Benedikt. 

Land tók aftur að rísa skömmu eftir að eldgosið hófst 18. desember.

Á ekki von á stærri jarðskjálftum

Atburðirnir sem orðið hafa á Reykjanesskaga í vetur, annars vegar 10. nóvember þegar kvikugangur myndaðist undir og í gegnum Grindavík og hins vegar eldgosið norðan Grindavíkur 18. desember, eru ólíkir að því leyti að stærri skjálftar voru 10. nóvember, en 18. desember voru þeir ekki svo stórir.

Fyrirvari eldgossins var stuttur, um 90 mínútna skjálftahrina.

Spurður hvort hann eigi von á því að í næsta atburði, hvort sem það verði eldgos eða kvikuhlaup, verði fyrirvarinn jafn stuttur og 18. desember, segist Benedikt frekar eiga von á því. Það sé ólíklegt að stærri skjálftar verði á svæðinu í bráð, þó aldrei sé hægt að útiloka það.

„Ég á ekki endilega von á stórum skjálftum en við gætum átt von á skjálftahrinu eins og varð fyrir eldgosið. En það er ómögulegt að segja til um hversu lengi hún varir. Mér finnst líklegt að við sjáum skjálftafyrirvara og aflögunarfyrirvara. En það er voða erfitt að segja til um hver fyrirvarinn er. Það fer kannski eftir því hvar það myndi vera,“ segir Benedikt. 

„En ef við sjáum hrinu eins og við sáum 18. desember, þá gerum við ráð fyrir að það sé eitthvað að fara af stað. Þá gæti alveg farið að gjósa í kjölfarið, en svo getur þetta líka ekki endað með gosi. Þetta hagar sér mismunandi milli atburða,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert