Kvikuinnskot myndaðist samfara eldgosinu sem hófst með látum 18. desember.
Innskotið varð í jarðskorpunni sunnan við gossprunguna og liggur það yfir kvikuganginum sem varð til í hamförunum 10. nóvember.
„Ef við horfum bara á aflögunina sem varð 18. desember, þá sjáum við að það verður mjög svipað innskot og varð 10. nóvember,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagsstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
„En það nær ekki eins langt, það nær bara frá Stóra-Skógfelli rétt suður fyrir Hagafell. Það nær lengra en gossprungan sjálf.“
Kvikuinnskotið sem myndaðist 10. nóvember fer í gegnum alla Sundhnúkagígaröðina, suðvestur í gegnum Grindavík og út í sjó.
Þegar blaðamaður ræddi við Benedikt að kvöldi 18. desember, einni og hálfri klukkustund eftir að eldgos hófst, sagði hann að sprungan væri á „fleygiferð“.
„Þá var hún á mikilli ferð og hélt því áfram til klukkan tvö um nóttina þegar fór að hægjast á þessu,“ segir Benedikt nú.
Kvikuinnskotið, eða sprungan, var þá komin suður fyrir Hagafell.
Spurður hvort hann hafi allt eins búist við því að sprungan myndi opnast alla leið þangað svarar hann játandi.
„Já, hún var á svo mikilli ferð. Og kvikuinnskotið sem myndaðist 10. nóvember nær alveg út í sjó suðvestan við Grindavík. Það er kannski ólíklegt að það nái svo langt aftur, en það er ekkert útilokað,“ segir Benedikt.
Að hans mati er öll línan sem myndaðist 18. desember, sem liggur frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli, líklegur upptakastaður eldgoss.
„Það passar mjög vel við virknina sem við erum að sjá,“ segir Benedikt.