Segir málið ekki einsdæmi

Lögreglustöðin við Hverfisgötu.
Lögreglustöðin við Hverfisgötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Gíslason lögmaður segir mál ungs karlmanns, sem á rætur að rekja til Kenía og var handtekinn á aðfangadag, ekki vera einsdæmi. 

Samkvæmt atvikalýsingu fjölskyldu mannsins var hann handtekinn fyrir það eitt að hafa ekki skilríki meðferðis. Telja þau upphaflegu ástæðu afskiptanna tengjast hörundslit hans. Lögreglan segir lýsingarnar sem komið hafa fram í fjölmiðlum ekki standast. 

Gunnar segir einstaklinga hafa leitað til sín vegna svipaðra mála og þess sem fjölskylda mannsins greindi frá. Vekur hann athygli á því að einstaklingar sem sæta þvingunaraðgerðum af hálfu lögreglu að ósekju, t.d. handtöku, eigi almennt rétt til bóta úr hendi íslenska ríkisins á grundvelli 246. greinar sakamálalaga, sbr. einnig 5. málsgrein 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Í samtali við mbl.is ræðir Gunnar sambærilegt mál skjólstæðings síns verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á næsta ári, en hann vakti fyrst athygli á því á Facebook.

Gunnar Gíslason lögmaður.
Gunnar Gíslason lögmaður. Ljósmynd/Aðsend

„Handtekinn fyrir sömu sakir“

„Á jólunum í fyrra kom þannig upp mjög svipað mál. Umbjóðandi minn, sem er útlendingur en þó EES/ESB-ríkisborgari og nokkuð dekkri á hörund en Íslendingar almennt, var þá einnig handtekinn fyrir sömu sakir. Þ.e. fyrir að vera ekki með skilríki meðferðis,“ segir í færslu Gunnars.

Rifjar hann upp að maðurinn hafi á þessum tíma búið í fjölbýlishúsi í miðbæ Reykjavíkur. Þar hafi lögreglan verið að leita að eftirlýstum manni sem fannst ekki. Hann segir að umbjóðandi sinn hafi ekki verið heima en hafi komið heim um það leyti sem lögreglan var að ljúka aðgerðum og mætti hann lögreglumönnunum í stigaganginum.

„Hann var eins og áður greinir ekki með skilríki meðferðis, en upplýsti lögreglu á staðnum um nafn sitt og kennitölu. Í stað þess að honum væri flett upp í kerfum lögreglu á staðnum til að staðfesta auðkenni hans, s.s. í snjallsíma eða í tölvu lögreglubíls, í samræmi við meðalhófsregluna, var ákveðið að handtaka hann og færa á lögreglustöð, svo hægt væri að fletta honum upp í tölvu þar, með tilheyrandi óhagræði og miska. Líkt og einu nettengdu tæki lögreglunnar væru á lögreglustöð. Var honum svo sleppt lausum í kjölfarið,“ skrifar Gunnar.

Bótaskyldu hafnað en ætlar lengra með málið

Gunnar sendi embætti ríkislögmanns bréf fyrir hönd umbjóðanda síns í lok október þar sem hann óskaði eftir afstöðu íslenska ríkisins til bótaskyldu vegna þeirra ónauðsynlegu frelsissviptingar sem umbjóðandi hans hafi þurft að þola að ósekju. Að hans mati var og er nokkuð borðleggjandi að umbjóðandi hans eigi rétt á bótum vegna frelsissviptingarinnar.

Svar barst nýlega frá ríkislögmanni þar sem bótaskyldu íslenska ríkisins var hafnað með þeim rökum að umbjóðandi Gunnars hafi með háttsemi sinni stuðlað að aðgerðunum sjálfur. Þá væntanlega með því að hafa ekki skilríki í vasanum í umrætt sinn að sögn Gunnars.

„Það sem mér finnst skammarlegast í þessu er að þegar ég fer og reyni að sækja fyrir hann miskabætur á grundvelli 246. greinar sakamálalaga þá er kröfunni hafnað á þeim grundvelli að hann hafi sjálfur stuðlað að aðgerðunum og þá væntanlega með því að vera ekki með skilríki,“ segir Gunnar við mbl.is.

Mögulega talinn ólöglegur innflytjandi

Gunnar segir að umbjóðandi sinn vilji fara með málið lengra og að málið verði þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur væntanlega í janúar.

„Þá reynir á það hvort ríkið beri bótaábyrgð eða ekki. Það er búið að reyna að fara samningaleiðina en bótaskyldunni er hafnað. Ég verð að segja það að mér þykir það ansi hart ef hinn almenni borgari þurfi að eiga það á hættu að vera handtekinn fyrir það eitt að vera ekki með skilríki meðferðis. Ég tel litlar líkur á að Íslendingur hefði fengið sömu afgreiðslu, skilríkjalaus,“ segir Gunnar við mbl.is.

Gunnar segir að það megi ráða af gögnum málsins að lögreglan hafi talið umbjóðanda sinn mögulega ólöglegan innflytjanda en hann sé grískur og er í fullu leyfi til að vera hér eins og aðrir ríkisborgarar innan ESS. Hann segir að lögregla hefði getað fengið vitneskju um það ef hún hefði flett honum upp á staðnum.

„Hvort húðlitur umbjóðanda míns hafi verið afgerandi í þeirri ákvörðun að hann skyldi handtekinn skal ósagt. Ljóst er þó af gögnum málsins að sú staðreynd að hann væri útlendingur hafði mikið að segja,“ skrifar Gunnar á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert