Tveir stórir jarðskjálftar urðu á Atlantshafshryggnum í gær. Annar varð klukkan 15.40 og mældist hann fimm að stærð. Á tólfta tímanum í gærkvöldi mældist svo annar sem var 5,2 að stærð.
Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna flokkar skjálftana sem skjálfta á Reykjaneshrygg, en svo nefnist Norður-Atlantshafshryggurinn þar sem hann kemur undan Reykjanestá.
Báðir skjálftarnir mældust á 10 kílómetra dýpi en upptök þeirra eru á svipuðum slóðum og jarðskjálftahrina sem varð 9. og 10. desember, eða tæplega þúsund kílómetra suður af Íslandi.