„Fólk lítur á verðbólguna sem skelfingu“

Hilmar segir nýtt samband stéttarfélaga hafa fóður til að geta …
Hilmar segir nýtt samband stéttarfélaga hafa fóður til að geta sest niður og samið hratt og vel. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar – sambands iðnfélaga, segir skipta mun meira máli að halda kaupmætti og ná niður veðbólgu og vöxtum, heldur en að bæta tveimur eða þremur þúsund krónum í launaumslagið. 

Hilmar kveðst ánægður með fyrsta formlega fund nýs bandalags stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins (SA) sem haldinn var í Karphúsinu fyrir hádegi í gær. 

Átti von á að þetta yrði skynsamlega sett fram

„Þannig er að fólk lítur á verðbólguna sem skelfingu, þeir sem eru búnir að vera jafn lengi og ég í þessu vita að verðbólgan er okkar helsti óvinur í kjarasamningum. Hún borðar svo hratt upp kaupmátt, þannig að við erum að reyna að halda kaupmætti. Því það að ná niður verðbólgu og vöxtum skiptir mun meira máli heldur en tvö eða þrjú þúsund krónur í launaumslagið,“ segir Hilmar. 

Fórstu með ákveðnar væntingar á fundinn?

„Ég átti von á því að þetta væri skynsamlega sett fram og þar sem að menn ætla að reyna að halda sér innan markmiða seðlabankans, sem hann er búinn að gefa út, að þá myndum við ná góðum árangri í því að koma einhverju á blað, sem að allir gætu verið sammála um.“

Fannst þér það ganga? 

„Maður veit aldrei hvernig gengur, en byrjunin er allavega góð og samstaðan er góð. Það er líka svo mikilvægt að við erum núna að senda frá okkur skilaboð um að það verði allir að taka þátt. Þá skiptir máli með fyrirtæki, sveitarfélög, ríki og alla sem að koma, að þeir skili inn í þessu, vegna þess að verkefnið verður að fá fætur og til þess að fá fætur þurfa allir að taka þátt.  

Veit aldrei hvaða hindranir verða á veginum

Hilmar segir það jákvætt og eftirtektarvert að horft sé á verkefnið sem sameiginlegt og að markmiðið sé að ná niður vöxtum og verðbólgu, auk þess að halda í kaupmátt launamanna. Hann segir það að sjálfsögðu skipta máli hvernig það sé útfært, það sé verkefnið framundan. 

„Mínar vonir eru að við náum að skrifa undir kjarasamning áður en næsti rennur út, en það það hefur kannski alltaf verið von og ekki gerst,“ segir Hilmar.

Ertu bjartsýnn á að það takist?

„Við skulum segja að við höfum fóður í það að geta sest niður og gert það hratt og vel, en svo veit maður aldrei hvaða hindranir verða á veginum.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert