Hirða sorp á gamlársdag en ólíklega í Laugardalnum

Snjórinn gerir þeim sem sinna sorphirðu erfiðara fyrir.
Snjórinn gerir þeim sem sinna sorphirðu erfiðara fyrir. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Ólíklegt er að pappírs- og plasttunnur í Laugardalnum verði tæmdar fyrr en eftir áramót. Þar sem dregist hefur aftur úr sorphirðu hefur vinnudagur sorphirðufólks verið lengdur yfir hátíðirnar og mun það hirða um helgar.

Pappír og plast er almennt hirt á þriggja vikna fresti fyrir hátíðirnar en eins og fram hefur komið eru ýmsar tafir í þeim flokkum. Er það vegna gríðarlegs magns af pappír og plasti og erfiðrar færðar, að því er fram kemur í skriflegum svörum Reykjavíkurborgar. 

„Núna, þegar magnið er þetta mikið og færðin erfið, hefur hirða á pappír og plasti dregist,“ segir í svari borgarinnar.

Sorptunnur verið fullar í marga daga

„Við vorum við losun í Grafarvogi og Vesturbænum á Þorláksmessu. Erum nú að ljúka við Miðbæinn og á leið austur eftir – Hlíðar, Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir…“ segir í svörum Reykjavíkurborgar.

„[Okkur] finnst ólíklegt að við náum í Laugardalinn í pappír og plasti fyrr en eftir áramót,“ kemur einnig fram í svörunum. Í Laugardalnum hafa sorptunnur margar verið fullar í 10 daga.

Vinna lengri daga og um helgar

Til þess að vinna upp þá sorphirðu sem dregist hefur aftur úr verður sorphirðufólk við vinnu á morgun og fram að hádegi á gamlársdag. 

Það líða almennt tvær vikur milli losana á blönduðu sorpi og matarleifum en sú sorphirða er ekki á eftir áætlun samkvæmt Reykjavíkurborg.

Borgin hvetur íbúa til að fara með stærri umbúðir á endurvinnslustöðvar Sorpu og nýta grenndarstöðvar ef pappír og plast rúmast ekki í heimilistunnunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert