Líklegra að atburðarásin endi með eldgosi

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þorvaldur Þórðarson, einn helsti eldfjallafræðingur landsins, telur í ljósi nýjustu upplýsinga líklegt að það byrji að gjósa aftur á Sundhnúkagígaröðinni og segir hann líklegasta gosstaðinn vera á milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

„Þetta getur líka endað með innskoti. Landrisið er komið í jafnmikla hæð og það var rétt fyrir gosið 18. desember en hvort það sé nóg til að eitthvað fari af stað er ég ekki alveg hundrað prósent viss um. En ég tel líklegra að þessi atburðarás endi með gosi og það gæti dregist eitthvað inn á aðra vikuna á nýju ári,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

Ekki alveg fullstorknuð

Þorvaldur segir líklegast að ef kvika komist upp á yfirborð þá verði það á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. 

„Sprungan hefur opnast á þessu svæði og kvikan sem fór þar inn er ekki alveg fullstorknuð og hluti hennar er enn þá í vökvaformi. Þar með er auðveldasta leiðin fyrir kvikuna að koma upp á þessum stað,“ segir Þorvaldur.

Ekki seinna vænna að reisa varnargarðinn

„Það er eitt sem ekki er hægt að útiloka að það gæti opnast sprunga sunnan í Hagafellinu og það yrði versta tilfellið fyrir Grindavík. Það er þess vegna ekki seinna vænna heldur að reisa varnargarð við bæinn. Kostnaður við gerð hans er bara dropi í hafið af þeirri fjárfestingu sem er til staðar í bænum.“

Þorvaldur telur að ef það verði gos þá muni það ekki hefjast með eins miklum látum og gosið sem hófst 18. desember en það gæti staðið yfir aðeins lengur en síðasta gos.

Gæti atburðarásin orðið svipuð og í síðasta gosi þar sem fór að gjósa með skömmum fyrirvara?

„Já ég myndi halda það. Það kæmu þá jarðskjálftar rétt áður og það færi svo að gjósa eftir einn til einn og hálfan tíma. Í gosinu 18. desember þá byrjaði landið að síga úti í Skipastígshrauni deginum áður og þegar gögnin eru skoðuð þá kemur í ljós að landsigið var komið í fullan gang um morguninn þann 18. og gosið hófst svo um kvöldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka