Miklar ógnir og veikleikar eru í einkahlutafélagaforminu hér á landi sem gera peningaþvætti auðveldara. Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra vill að hömlur verði settar á notkun reiðufjár. Það veki furðu hversu mikið reiðufé sé í umferð.
Í nýju áhættumati um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka segir að ólögmæt atvinnustarfsemi þrífist á Íslandi. Talið er að umfang dulinnar ólögmætrar starfsemi geti numið 3–7% af vergri landsframleiðslu. Ólögmæt starfsemi sé sérstaklega algeng í verktakageiranum.
Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra kom að gerð skýrslunnar. Hann segir við mbl.is að auðvelt sé misnota félögin til að þvætta peninga einkum vegna þess „geigvænlega fjölda“ sem til er af einkahlutafélögum. Félög sem ekki eru í reksti séu oft misnotuð, en engin skylda er að slíta einkahlutafélagi sem hætt hefur starfsemi.
Reiðufjárvelta í íslenska fjármálakerfinu var að lágmarki liðlega 141 ma.kr. árið 2021, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Þar af nam reiðufjárvelta lögaðila 31 ma.kr. sem Birgir segir vera töluverða fjárhæð.
„Maður veltir því fyrir sér hvort það sé samband þarna á milli: notkun reiðufjár, peningaþvætti og einkahlutafélög. Ég held að þetta tengist allt saman sterkum böndum. Þetta er gömul saga og ný,“ segir Birgir.
„Það þyrfti að spyrna betur við fótunum. Það þyrfti að setja á hömlur á notkun reiðufjár,“ segir hann og bendir á að erlendis sé bannað að nota reiðufé á ákveðnum tímum sólarhrings.
Birgi finnst aftur að „áhættuvitund“ almennings gagnvart notkun reiðufjár hafi aukist á umliðnum árum. Jafnframt hefur tilkynningaskyldum aðilum fjölgað.
„Þetta er menningalegt hvernig við notum reiðufé. En það er að breytast, sýnist manni,“ segir hann.
Hann segir að það þurfi tvímælalaust hertara eftirlit með ársreikningum fyrirtækja og eftir atvikum að herða viðurlög við því að ársreikningum sé ekki skilað. Þá telur Birgir að setja þyrfti strangari kröfur um einkahlutafélög, til að fækka félögum sem ekki eru í rekstri.
Þá segir Birgir að það sé „áhyggjuefni“ að hagræðingarkrafa sé sett á stofnanir sem sinna skattaeftirliti á sama tíma og íbúum fjölgar mikið.
Á Íslandi er undanskot eigna og kennitöluflakk, þ.e. þegar fyrirtæki flytur eignir sínar yfir á aðra kennitölu en skilur skuldir fyrirtækisins eftir á hinni gömlu, bæði stór vandamál í fyrirtækjarekstri, samkvæmt skýrslu ríkislögreglustjóra.
Oft sé röngum upplýsingum um raunverulega eigendur vísvitandi haldið að fyrirtækjaskrá Skattsins, þegar eigendur fá fólk til þess að stofna eða skrá sig fyrir stjórnun einkahlutafélags, sem einskonar leppir. Er þetta sérstaklega algengt skömmu fyrir gjaldþrot og eru leppir þá kallaðir „útfarastjórar“.
Ein birtingarmynd brotastarfsemi í annars löglegri starfsemi eru sýndarviðskipti af ýmsu tagi, á milli félaga undir stjórn tengdra aðila, sem m.a. geta teygt anga sína yfir landamæri.