Bæjarstjórn Akraness kveðst reiðubúin til að taka upp og endurskoða gjaldskrárhækkanir, verði af þjóðarsátt um að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi.
Í yfirlýsingunni segist bæjarstjórn Akraneskaupstaðar fylgjast náið með viðræðum Samtaka atvinnulífsins og landssambanda og stærstu stéttarfélaga innan ASÍ. Akraneskaupstaður ætli láta sitt eftir liggja ef samið verður á grundvelli þjóðarsáttar.
„Eitt mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum er að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi sem komið hefur hart niður á sveitarfélögum, heimilum og fyrirtækjum,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar er því bætt við að sveitarfélög, vinnumarkaðurinn, fyrirtæki landsins og ríki þurfi að leggjast á eitt og „getur enginn skorast undan ábyrgð“ til þess að það markmið náist.
„Undangengin ár hefur bæjarstjórn Akraness lagt áherslu á að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf, enda hafa gjaldskrár bæjarins hlutfallslega lækkað og hækkuðu t.d. ekki í fyrra barnafjölskyldum til heilla,“ segir bæjarstjórnin.
„Eigi að síður vill bæjarstjórn með þessari yfirlýsingu lýsa sig reiðubúna til að taka upp og endurskoða gjaldskrárhækkanir, verði af þjóðarsátt.“