Klara Ósk Kristinsdóttir
Undirbúningsvinna við þá framkvæmd að reisa varnargarða við Grindavík hófst strax í gærkvöldi er Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sendi varnargarðana í hið lögformlega umsóknarferli.
Undirbúningur heldur áfram í dag og á morgun en samhljómur var um að reisa varnargarða sem fyrst við Grindavík er dómsmálaráðherra lagði erindið fram á ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi í dag.
Áformin verða kynnt formönnum stjórnarandstöðunnar eftir hádegi í dag og ef allt gengur eftir verður hægt að hefja vinnuna 2. janúar.
Fyrst verður ráðist í tvo hluta og verða þeir sunnan við Hagafell. Segir Guðrún staðsetningu hans vera til þess að verja nyrstu byggð Grindavíkur en þar er hættan talin mest ef eldgos hæfist á syðri hluta kvikugangsins sem liggur í suðvesturátt ofan úr Sundhnúkagígaröðinni.
Kostnaður við þennan hluta varnargarðanna er hálfur milljarður króna.
„Þarna erum við að gera ráð fyrir að fara í hálfa hæð,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.
Varnargarðarnir við Svartsengi kostuðu aðeins minna en ráð var gert fyrir að sögn Guðrúnar. Áætlaður kostnaður við fullgerða varnargarða er sex milljarðar króna.