Minna seldist af áfengi í verslunum ÁTVR fyrir jólin í ár en í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR seldust 1.954.524 lítrar í Vínbúðunum í desembermánuði árið 2022 fram að jólum en 1.880.956 lítrar nú. Þetta er rúmlega 4% minni sala en í fyrra.
Ekki liggja fyrir neinar skýringar á þessum samdrætti en þó kann að spila inn í að lokað var á aðfangadag í ár því hann bar upp á sunnudag. Þegar horft er á sölu ÁTVR í heild sinni í ár kemur í ljós að salan hefur dregist saman um 2% frá fyrra ári.
Sala á jólabjór hefur sömuleiðis verið talsvert minni í ár en í fyrra. Alls seldust 893 þúsund lítrar í fyrra. Samkvæmt svari ÁTVR við fyrirspurn Morgunblaðsins höfðu á þessum tímapunkti í fyrra selst 847 lítrar af jólabjór en í ár eru þeir um 781 þúsund. Það er um 7,8% minnkun milli ára.
Vinsælasti jólabjórinn er sem fyrr Tuborg Julebryg en sala á honum hefur þó dregist saman um 13% í Vínbúðunum samkvæmt tölum ÁTVR. Aukning hefur orðið í sölu á Víking jólabjór en hástökkvarinn milli ára er þó Gull Lite Jól White Ale. Sala á þeim bjór hefur aukist um 42% frá því í fyrra. Athygli vekur að hinn vinsæli Jóla Kaldi hrapar í vinsældum og hefur salan dregist saman um 28% á dósum.