Þarf lítið að breytast svo litakóðinn verði rauður

Grindavík úr lofti.
Grindavík úr lofti. mbl.is

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort reglum sem eru í gildi um aðgengi Grindvíkinga að bænum verði breytt í ljósi nýs hættumats Veðurstofu Íslands sem gefið var út í dag. Almannavarnir funda með Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra Suðurnesja, á morgun.

Í nýju hættumati Veðurstofunnar eru taldar auknar líkur á eldgosi og þá hefur hættu vegna hugsanlegs hraunflæðis og gasmengunar verið bætt inn í hættumatskort.

„Við erum hugsi yfir þessu. Þó að litakóðinn fyrir bæinn hafi ekki breyst í hættumatinu þá eru reiknuð hættumatsstig fyrir hvert svæði út frá vísindalegri nálgun. Það hefur hækkað fyrir Grindavík og það þarf lítið að breytast til að það fari í næsta flokk fyrir ofan sem er þá rauður,“ segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, við mbl.is.

Alltaf markmiðið að fólk geti verið heima

Víðir segir að menn séu að meta stöðuna og hvernig hægt sé að tryggja að nægur tími gefist til að rýma bæinn ef til eldgoss kæmi. Spurður hvort það sé til skoðunar að meina íbúum að vera í bænum um áramótin segir hann:

„Við erum svo ekki komin þangað en við munum ræða við lögreglustjórann á Suðurnesjum á morgun og fara yfir stöðuna. Við höfum skoðað alla þessa hluti í dag og áttað okkur á því hvað þetta nýja hættumat þýðir.

Við vildum gefa okkur daginn í dag til að fara yfir málin. Það er alltaf markmiðið að fólk geti verið heima hjá sér en við berum ábyrgð á því að tryggja öryggi fólks í leiðinni og við gerum okkar besta til þess og meta hvaða leiðir eru til í þessu til að halda því áfram að fólk geti fengið að vera heima,“ segir Víðir.

Gist í hundrað húsum 

Víðir segir að á jólanótt hafi verið gist í um það bil 100 húsum í Grindavík að mati þeirra lögreglumanna sem voru á vaktinni og keyrðu um bæinn. Þá hafi verið gist í um 30 húsum síðustu nótt.  

„Við vitum að það er rólegur tími núna. Það eru ekki mörg fyrirtæki með starfsemi í gangi og margir í jólafríi. Við vitum að um helgina þá vill fólk fara heim og við höfum fullan skilning á því en það er okkar lagalega skylda að tryggja öryggi fólks og við munum taka yfirvegaðar og vel rökstuddar ákvarðanir hvort sem við höldum óbreyttum reglum eða breyta þeim með einhverjum hætti,“ segir Víðir.

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurmat hjá Veðurstofunni á hverjum degi

Víðir segir að í dag hafi verið farið yfir boðunarmálin og hvar sé hægt að stytta leiðirnar frá því Veðurstofan hafi samband þangað til að hægt sé að taka ákvörðun um rýmingu. Hann segir að ytri aðstæður skipti miklu máli eins og veðrið og færðin og það líti ágætlega út á næstu dögum.

„Þó svo að Veðurstofan gefi út hættumatskort sem á að gilda til 5.janúar þá sögðu þau á Veðurstofunni við okkur í dag að tekið yrði tekið endurmat á hverjum degi á meðan landrisið haldi áfram með sama hraða. Það sem við erum að skoða í þessu samhengi er hvað séu miklar líkur á að gosið komi upp það sunnarlega að hraunstraumurinn stefni á Grindavík og hvað við höfum mikinn tíma.“

Hann segir að stóra gosið sem hófst 18. desember hafi sýnt að atburðarásin geti orðið mjög hröð og hraun geti farið þokkalega langar vegalengdir á stuttum tíma. Hann bendir á að frá Hagafelli og niður í Grindavík séu einungis um 1.500-1.700 metrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert