„Við verðum þarna eins lengi og við þurfum“

Stærðarinnar tjald hefur verið reist á Austurvelli vegna mótmælanna.
Stærðarinnar tjald hefur verið reist á Austurvelli vegna mótmælanna. mbl.is/Eyþór

Fólk frá Palestínu dvelur nú á þriðja sólarhring í tjaldbúðum fyrir utan Alþingi á Austurvelli í mótmælaskyni við aðgerðarleysi stjórnvalda í tengslum við fjölskyldusameiningar. Samtökin No Borders Iceland, styðja við aðgerðir fólksins og hafa nú reist þar stærðarinnar tjald.

Katla Guðbjörg Gunnarsdóttir, einn aðgerðarsinnana, ræddi við mbl.is og sagði mótmælin alfarið af frumkvæði þeirra sem gisti í tjöldunum.

„Þetta er algjörlega af frumkvæði þeirra frá Palestínu, sem eru að þrýsta á stjórnvöld út af fjölskyldusameiningunni. Við aðgerðarsinnarnir erum í raun bara þarna til að sýna samstöðu.“

Hefur tekist hjá nágrannaríkjum

Hún kveðst ekki hafa nákvæmar tölur um hver margir taki þátt í mótmælunum, margir komi og fari en að minnst fjórir hafi verið þarna í tjöldunum samfleytt.

Ísland samþykkti um­sókn fólks­ins um vernd eft­ir langa bið sem gerði þeim kleift að sækja um fjöl­skyldusam­ein­ingu. Þá tók eitt og hálft ár að fá svör frá Útlend­inga­stofn­un varðandi sameininguna en þau bárust fyrst eft­ir að stríðið hófst. 

Katla kveðst forviða yfir að ekki hafi tekist að sækja fólkið enda hafi öðrum löndum, þar á meðal Noregi og Svíþjóð, tekist að sækja fólk gegn um landamærin við Rafah-borgina. 

„Þetta hefur tekist hjá nágrannaríkjum, við skiljum ekki af hverju þetta hefur ekki gerst hér.“

Minnst fjórir mótmælendur hafa dvalið í tjöldunum frá upphafi mótmælanna.
Minnst fjórir mótmælendur hafa dvalið í tjöldunum frá upphafi mótmælanna. mbl.is/Eyþór

Hvetja ráðherra til að koma á Austurvöll

No Borders gáfu frá sér yfirlýsingu varðandi mótmælin í morgun þar sem þau kröfðust tafarlausra aðgerða ráðamanna. Hafa þau óskað eftir fundi við utanríkisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og dómsmálaráðherra. 

„Hér er um að ræða neyðartilfelli sem krefst tafarlausra aðgerða. Við krefjumst þess að æðstu ráðamenn Íslands fullnýti vald sitt við það að koma fólki, sem þegar hefur fengið dvalarleyfi á forsendum fjölskyldusameiningar, til Íslands sem fyrst,“ segir í tilkynningunni. 

Aðspurð segir Katla engin viðbrögð hafa borist frá ráðamönnum enn sem komið er. Aðgerðarsinnarnir muni standa vörð um mótmælendur þangað til þess gerist ekki lengur þörf. 

„Við verðum þarna eins lengi og við þurfum. Þangað til að þetta ferli sem er búið að lofa fer í alvörunni af stað og fjölskyldurnar eru sameinaðar.“

Eftir viðtalið afhentu aðgerðarsinnar ráðherrum skriflegar kröfur mótmælenda fyrir utan ráðherrabústaðinn og hvöttu þá til að koma á Austurvöll og spjalla við tjaldbúa. 

Aðgerðarsinnar afhentu ráðherrum kröfugerð um aðgerðir varðandi fjölskyldusameiningar.
Aðgerðarsinnar afhentu ráðherrum kröfugerð um aðgerðir varðandi fjölskyldusameiningar. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert