Vilja ná fram þjóðarsátt

Frá fundinum í gær.
Frá fundinum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsti formlegi fundur nýs bandalags stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins (SA) fór fram í húsi ríkissáttasemjara í gærmorgun. Á fundinum fóru fram viðræður fyrir nýja kjarasamninga, en stærstu stéttarfélög og landssambönd á almennum vinnumarkaði á Íslandi hafa ákveðið að taka höndum saman í þeirri viðleitni að ná fram þjóðarsátt. Er markmiðið að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi.

„Við ákváðum að gefa út sameiginlega yfirlýsingu þar sem sú staða er komin upp að við erum núna – SA og breiðfylking stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðnum – búin að ákveða að við ætlum að gera kjarasamninga til lengri tíma sem veita fyrirsjáanleika og stuðla að efnahagslegum stöðugleika,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Segir hún alla þurfa að leggjast á eitt til að ná niður verðbólgu og stýrivöxtum, þar á meðal fyrirtæki, ríki og sveitarfélög.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir algjöra samstöðu og einhug ríkja hjá fulltrúum launafólks. Að hennar sögn gætti mikils samhljóms þvert yfir borðið á fundi gærdagsins og kveðst hún vongóð um framhaldið.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafi ekki umboð

Þó eru ekki allir á sama máli, en Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), leggst alfarið gegn hugmyndum um nýjan lífskjarasamning. Í pistli sem Ari skrifaði á vef SSF segir hann að „mikil flugeldasýning“ hafi verið haldin fyrir jól í Karphúsinu þegar fámennur hópur forystufólks innan ASÍ sagðist stefna að því að loka kjarasamningum sem fyrst og ætti sú niðurstaða að gilda fyrir allan vinnumarkaðinn.

Ari segir það algerlega ljóst að félagsmenn SSF hafi engan vilja til þess „að vera með í lífskjarasamningaleik einu sinni enn“ og bætir við að hann telji þá sem staðið hafi að „flugeldasýningunni“ fyrir jól ekki hafa neitt umboð til að semja fyrir hönd vinnumarkaðarins í heild.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka