Geti farið af stað „hvenær sem er“

Ekki hefur hægst á landrisinu við Svartsengi.
Ekki hefur hægst á landrisinu við Svartsengi. mbl.is/Eyþór

Landrisið við Svartsengi er komið um það bil í sömu hæð og það var fyrir eldgosið þann 18. desember og við kvikuhlaupið sem olli náttúruhamförum í Grindavík 10. nóvember.

Þetta segir Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, jarðeðlis­fræðing­ur og fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir að landrisið muni eflaust mælast í þessari hæð næstu daga þar sem það hækki ekki svo mikið frá degi til dags. Líklegt er að landrisið verði formlega orðið meira en fyrir síðustu fyrrnefnda tvo atburði á næstu dögum.

„Ekki þar með sagt að það sé að fara af stað

„Miðað við það að þetta er í sömu stöðu og fyrir síðasta gos, fyrir hlaupið, þá erum við bara að gera ráð fyrir að þetta geti farið af stað hvenær sem er. Það er ekki þar með sagt að það sé að fara af stað. Það er bara okkar varúðarráðstöfun,“ segir Benedikt.

Hann segir að núna taki við ákveðin bið þar sem ekki er vitað hvað eða hvort eitthvað gerist. Í ljósi fyrri atburða þá séu auknar líkur á gosi en Benedikt útilokar ekki að þessi nákvæma hæð landriss sé þýðingarlaus.

„Eru þetta einhver mörk eða heldur þetta bara áfram? Þá kannski þurfum við að bíða í einhverjar vikur,“ segir Benedikt.

Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, jarðeðlis­fræðing­ur og fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands.
Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, jarðeðlis­fræðing­ur og fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka