Grimmar skerðingar hjá Elkem vegna orkuskerðinga

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem.
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýendurbyggður ofn kísilmálmverksmiðju Elkem verður fyrir barðinu á boðuðum orkuskerðingum Landsvirkjunar til stórnotenda á suðvesturhluta landsins.

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem, segir að framleiðslugeta fyrirtækisins skerðist um rúmlega 30%.

Elkem er með þrjá ofna og er þessi sá stærsti. Nýverið var ofninn endurbyggður og nam sú fjárfesting 1,2 milljörðum króna. Búið er að fresta standsetningu ofnsins þar til afhending raforku er tryggð.

„Við erum í grimmum skerðingum með alveg heilan ofn úti og í rauninni búin að vera með hann úti síðan 15. desember,“ segir Álfheiður.

Lands­virkj­un hef­ur til­kynnt stór­not­end­um á suðvest­ur­hluta lands­ins, Elkem, Norðuráli og Rio Tinto og fjar­varma­veit­um að skerða þurfi orku til starf­semi þeirra. Skerðing­arn­ar hefjast 19. janú­ar 2024 og geta staðið allt til 30 apríl.

Nauðsynlegt að auka raforkuframleiðslu

Hún segir að fyrirtækið sé að verja helstu viðskiptavini með framleiðslu hinna tveggja ofnanna en að fyrirtækið hafi þurft að fækka fyrirhuguðum sölum fyrir næsta ársfjórðung.

„Þetta er óþægilegt líka því svo veit maður ekki hvenær yfir lýkur og það er bara eins og gangurinn er og erfitt að ráða við það.“

Álfheiður segir nauðsynlegt að styrkja flutningsnet Landsnets sem og að auka raforkuframleiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert